Fögnuðu með mótherjum sæti í efstu deild að nýju

Leikmenn HK/Víkings fagna 1. deildarmeistaratitlinum.
Leikmenn HK/Víkings fagna 1. deildarmeistaratitlinum. mbl.is/Golli

„Selfyssingar fögnuðu þarna líka og tóku einhverjar „Pepsi-myndir“. Það var mjög gaman að hafa bæði lið bara glöð og fagnandi eftir 1:0-leik,“ segir Björk Björnsdóttir, markvörður og fyrirliði HK/Víkings, en liðið fagnaði um helgina sigri í 1. deildinni í knattspyrnu.

Hið sameinaða lið HK og Víkings tryggði sér deildarmeistaratitilinn með því að vinna Selfoss 1:0 í lokaleiknum, en í leikslok var ljóst að Selfoss kæmist einnig upp í Pepsi-deildina á sjö mörkum betri markatölu en Þróttur Reykjavík og því höfðu mótherjar og samherjar Bjarkar ástæðu til að fagna, sem og hún sjálf auðvitað:

„Þetta er fjórða tímabilið mitt með HK/Víkingi og við fórum í úrslitakeppnina öll þrjú árin þangað til núna. Maður er búinn að bíða lengi eftir þessu,“ segir Björk. Málið er að þar til í sumar voru aðeins tvær deildir í knattspyrnu kvenna á Íslandi, Pepsi-deildin og 1. deildin, og í 1. deildinni var endað á úrslitakeppni. Í sumar bættist 2. deildin við og úrslitakeppnin var aflögð, svo að í sumar giltu sigrar í maí alveg jafnmikið og í ágúst og september. Tímabilið var enginn dans á rósum hjá HK/Víkingi en liðið gat fagnað vel að lokum:

„Þetta gekk upp og niður hjá okkur, og þegar það voru fjórar umferðir eftir vorum við í 3. sæti, fimm stigum á eftir Þrótti. Þá leit þetta ekkert allt of vel út. En við höfðum alltaf trú á því að við værum að fara upp í Pepsi-deildina,“ segir Björk, sem fagnar nýja deildakerfinu og því að úrslitakeppnin hafi verið aflögð:

„Ég er mjög ánægð með það hvernig þetta kemur út. Það er gott að lið megi núna misstíga sig í 1-2 leikjum án þess að allt tímabilið fari í súginn. Það geta allir lent í því að eiga vondan dag eða að missa leikmenn í meiðsli og slíkt. Það er svo ótrúlega leiðinlegt þegar slíkt hendir í leikjum í úrslitakeppninni, eins og þetta hefur verið síðustu þrjú ár hjá okkur í kjölfarið á mjög góðu tímabili í deildarkeppninni,“ segir Björk.

Sjá allt viðtalið við Björk í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert