Ísland hóf keppni á stórsigri

Ísland hóf undankeppni HM kvenna í knattspyrnu á 8:0-sigri gegn Færeyjum á Laugardalsvelli í kvöld. Staðan í hálfleik var 4:0 og íslenska liðið hafði algjöra yfirburði gegn frænkum sínum allan leikinn. 

Þetta var fyrsti leikur Íslands í undankeppninni en Færeyjar töpuðu 8:0 fyrir Tékklandi í Þórshöfn í sínum fyrsta leik síðastliðið fimmtudagskvöld. Í riðli Íslands eru einnig lið Þýskalands og Slóveníu. Efsta liðið kemst beint á HM. Fjögur lið með bestan árangur í 2. sæti, í undanriðlunum sjö, komast í umspil um eitt laust sæti til viðbótar.

Næsti leikur Íslands er á útivelli gegn tvöföldum heimsmeisturum Þýskalands þann 20. október.

Elín Metta Jensen fékk tækifæri sem fremsti sóknarmaður Íslands og nýtti það frábærlega í fyrri hálfleiknum. Hún skoraði fyrsta mark leiksins eftir rétt rúmar tvær mínútur, eftir góðan undirbúning Öglu Maríu Albertsdóttur, og þar með var veislan hafin. Ísland skapaði sér fullt af færum og á 17. mínútu kom Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir liðinu í 2:0, eftir sendingu frá Elínu Mettu sem sneri varnarmann glæsilega af sér.

Elín Metta var ekki hætt því hún skoraði annað mark sitt með skalla, eftir 25 mínútna leik, eftir fyrirgjöf Hallberu Guðnýjar Gísladóttur. Dagný Brynjarsdóttir hafði skömmu áður átt skalla í stöng. Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði svo fjórða og síðasta mark fyrri hálfleiks með hörkuskalla eftir hornspyrnu Hallberu.

Ísland hóf seinni hálfleik af krafti og Gunnhildur Yrsa skoraði seinna mark sitt í leiknum með skalla af nærstöng eftir hornspyrnu Hallberu. Fanndís Friðriksdóttir skoraði svo áttunda markið beint úr aukaspyrnu utan af kanti, sem Anna Hansen í marki Færeyja hefði þó átt að geta varið.

Færeyingum tókst aldrei að skapa sér færi í leiknum en þeim tókst að halda aftur af sóknarmönnum Íslands ágætlega um tíma eftir sjötta markið. Fimm mínútum fyrir leikslok átti varamaðurinn Sandra María Jessen skot í stöng, og skömmu síðar skoraði annar varamaður, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, með frábærum skalla eftir sendingu Ingibjargar Sigurðardóttur sem lék sem hægri bakvörður í leiknum. Nánast strax í kjölfarið skoraði Fanndís sitt annað mark í leiknum, áttunda og síðasta mark Íslands, með frábæru skoti efst í hægra markhornið.

Ísland 8:0 Færeyjar opna loka
90. mín. Fanndís Friðriksdóttir (Ísland) skorar 8:0 - Vá! Þetta var nánast eins mikið upp í vinkilinn og hægt er. Frábært skot af vítateigslínunni. Hallbera átti stoðsendinguna, en Fanndís átti eftir að gera ansi mikið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert