Markið létti af mér afar þungu fargi

Sara Björk Gunnarsdóttir skallar boltann í mark Færeyinga.
Sara Björk Gunnarsdóttir skallar boltann í mark Færeyinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við skoruðum átta mörk, unnum leikinn og það er frábær byrjun á undankeppni fyrir HM að mínu mati. Við reyndum að halda tempóinu eins háu og mögulegt var og mér fannst við gera það vel. Við héldum einbeitingu allan leikinn sem er vel af sér vikið,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir sannfærandi 8:0-sigur gegn Færeyjum í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Það var mjög kærkomið að ná að skora mark í þessum leik. Það er langt síðan ég skoraði fyrir landsliðið og það var þungu fargi af mér létt. Eftir það sem á undan er gengið hjá liðinu var gott að byrja þessa undankeppni á jákvæðan hátt. Það brutust út alls konar tilfinningar í kjölfar marksins og þær flæddu um líkamann, sem er bara hið besta mál,“ sagði Sara Björk sem skoraði sitt 19. mark í 110. landsleik sínum. 

„Næsti leikur okkar er gegn einu besta liði í heimi, Þýskalandi, það verður krefjandi. Við teljum okkur eiga möguleika á stigi eða stigum í þeim leik, en til þess að svo geti orðið þurfum við allar að eiga topp frammistöðu. Við höfum sýnt það áður að við getum strítt stórþjóðum og við stefnum á það í þessum leik. Við þurfum að spila agaðan leik, þora að að halda boltanum og nýta föstu leikatriðin vel,“ sagði Sara Björk um næsta leik íslenska liðsins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert