Víkingar semja við lykilmenn

Milos Ozegovic og Halldór Smári Sigurðsson verða báðir áfram í …
Milos Ozegovic og Halldór Smári Sigurðsson verða báðir áfram í Víkinni. Ljósmynd/Tómas Freyr Kristjánsson

Knattspyrnudeild Víkings R. hefur komist að samkomulagi við Halldór Smára Sigurðsson og Milos Ozegovic um að þeir leiki áfram með félaginu eftir yfirstandandi tímabil.

Halldór Smári er leikjahæsti núverandi leikmaður félagsins og hefur leikið 261 leiki fyrir félagið. Halldór lék framan af ferlinum á miðjunni og síðar í vinstri bakverði. Undanfarin ár hefur hann hins vegar eignað sér stöðu miðvarðar og er að margra áliti að eiga sitt besta tímabil nú í sumar. Halldór Smári hefur verið í byrjunarliði í öllum leikjum Víkings í deildinni í sumar og ef fram heldur sem horfir gæti hann orðið leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins á samningstímanum. Halldór Smári skrifaði undir samning út tímabilið 2020.

Varnarsinnaði miðjumaðurinn Milos Ozegovic kom til Víkings frá serbneska félaginu Radnicki Pirot í febrúar á þessu ári. Hann hefur spilað 17 leiki í deildinni í sumar og skorað eitt mark. Milos skrifaði undir framlengingu á samningi sínum út tímabilið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert