Kem vonandi eitthvað við sögu

Atli Viðar Björnsson í bikarleik gegn Leikni Reykjavík í sumar.
Atli Viðar Björnsson í bikarleik gegn Leikni Reykjavík í sumar. mbl.is/Golli /

Atli Viðar Björnsson, framherji FH-liðsins í knattspyrnu, glímir við meiðsli aftan í læri og það er ástæðan fyrir því að hann hefur ekki verið í leikmannahópi FH-inga í síðustu þremur leikjum.

„Ég fékk smá tak aftan í lærið fyrir um tíu dögum síðan,“ sagði Atli Viðar í samtali við mbl.is í kvöld en samherjar hans töpuðu fyrir Fjölnismönnum í frestuðum leik frá því í 15. umferðinni í kvöld.

„Vonandi get ég eitthvað komið við sögu í síðustu leikjunum en það er þó ekki víst,“ sagði Atli Viðar, sem hefur komið við sögu í 11 af 20 leikjum FH-liðsins í Pepsi-deildinni í sumar.

Þessi mikli markaskorari hefur ekki náð að komast á blað í markaskorun í deildinni í sumar en hann hefur fengið fáar spilmínútur með Hafnarfjarðarliðinu í sumar. Atli skoraði tvö mörk í bikarnum gegn Sindra í 6:1 sigri liðsins í 32-liða úrslitunum.

Atli Viðar, sem er 37 ára gamall, var markahæsti leikmaður FH í deildinni í fyrra með 7 mörk. Hann varð þá Íslands­meist­ari með liðinu í átt­unda sinn og hef­ur unnið alla meist­ara­titla þess frá upp­hafi. Hann er marka­hæsti leikmaður fé­lags­ins í deild­inni frá upp­hafi með 113 mörk, og um leið þriðji marka­hæsti leikmaður efstu deild­ar frá upp­hafi. Tryggvi Guðmundsson er markahæstur með 131 mark og þar á eftir kemur Ingi Björn Albertsson með 126.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert