„Hann gerir margt heimskulegt“

André Bjerregaard kom öflugur til leiks með KR-ingum.
André Bjerregaard kom öflugur til leiks með KR-ingum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég braut dálkbein í fótleggnum. Það er víst illskást að brjóta það bein. Læknarnir segja að ég geti kannski byrjað að spila aftur eftir þrjá mánuði,“ segir André Bjerregaard, danski knattspyrnumaðurinn í liði KR.

Hann fótbrotnaði í leik gegn KA á dögunum og mun því ekki spila meira fyrir KR á leiktíðinni. Samningur Bjerregaard, sem þótti fríska vel upp á lið KR þegar hann kom til liðsins á miðju tímabili, rennur út nú í haust og hann gæti því hafa leikið sinn síðasta leik í Vesturbænum.

Aleksandar Trninic, miðjumaður KA, fótbraut Bjerregaard með harkalegri tæklingu og hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir. Í sjónvarpsþættinum Pepsi-mörkunum var farið yfir fleiri slæm brot Trninic:

„Ég sá þáttinn í sjónvarpinu þar sem búið var að klippa saman öll atvikin með honum. Ég hef ekki svo mikið að segja um manninn. Hann gerir margt heimskulegt á vellinum. Þá er ég ekki bara að tala um það hvernig hann er stundum ekkert að hugsa um að ná í boltann, heldur hvernig hann leggst niður og vælir í hvert skipti sem hann fær eitthvert smáhögg. Hann fór niður 4-5 sinnum í leiknum við okkur og þóttist hafa fengið eitthvert svakahögg eða olnbogaskot. En ég hef ekki mikinn áhuga á að tjá mig um hann. Ég er auðvitað bara ekki ánægður með þessa stöðu,“ segir Bjerregaard.

Nánar er rætt við Bjerregaard í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert