Hjörtur Logi á heimleið - FH fyrsta val

Hjörtur Logi Valgarðsson í leik með Örebro.
Hjörtur Logi Valgarðsson í leik með Örebro. Ljósmynd/Twitter

Knattspyrnumaðurinn Hjörtur Logi Valgarðsson er að öllum líkindum á heimleið úr atvinnumennskunni en hann mun yfirgefa sænska úrvalsdeildarliðið Örebro þegar samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið.

„Það eru góðar líkur á því að ég komi heim. Ég veit af áhuga FH og fleiri liðum á Íslandi en ég bara það mikill FH-ingur að það yrði erfitt að fara í annað lið. Ég er ekkert að drífa mig að taka ákvörðun en það styttist í það,“ sagði Hjörtur Logi í samtali við mbl.is.

Hjörtur Logi er 29 ára gamall uppalinn FH-ingur sem lék með liðinu í efstu deild frá 2006-2011. Hann gekk í raðir sænska úrvalsdeildarliðsins Gautaborg árið 2011 og lék með því í þrjú ár áður en hann fór til norska liðsins sem hann lék með í eitt ár. Frá því í janúar 2015 hefur hann leikið með Örebro og á þessu tímabili hefur hann komið við sögu í 17 deildarleikjum með liðinu.

Hjörtur Logi á að baki 10 leiki með A-landsliðinu og lék síðast með því gegn Finnum í janúar á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert