Blaut tuska framan í stelpurnar

Halldór Jón Sigurðsson
Halldór Jón Sigurðsson mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það gekk illa að setja boltann yfir línuna, við fáum færi og þær bjarga á línu en við náum bara ekki að klára þetta. Þetta dettur fyrir Grindavík sem gerði vel og fékk þær skyndisóknir sem þær leggja upp með,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, eftir 3:2 tap gegn Grindavík í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar kvenna í dag. Með sigri hefði Þór/KA tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en nú er ljóst að sú baratta verður útkljáð í loka umferðinni sjálfri.

Það var mikið hvassviðri í Grindavík í dag og völlurinn rennblautur, hafði það áhrif?

„Það hafði áhrif en bara jafnt á bæði liði. Það eru klárlega meiri gæði í okkar liði og við hefðum viljað spila inni eins og okkur var boðið en það þýðir ekki að væla yfir því. Grindavík spilaði betur á sínum styrkleikum en við á okkar.“

Var spennustigið kannski of hátt fyrir svona mikilvægan leik?

„Nei, ég held að það hafi verið í lagi. Þetta var kannski bara einn af þessum leikjum, við skjótum í slá og svo skora þær strax í kjölfarið. Stundum er þetta svona og við verðum að takast á við það af krafti á okkar heimavelli næst.“

„Ef þetta er ekki blaut tuska framan í stelpurnar um að þær verða að gera betur þá veit ég ekki hvað. Þær verða að berja sig saman og hugsa sinn gang á leiðinni heim og kýla svo í gegnum vegginn þegar við komum heim.“

„Við erum búin að vera efsta liðið í allt sumar og treystum á alla leikmenn, þeir verða að þjappa sig saman og klára þetta.“

Þór/KA á FH á heimavelli í lokaumferðinni og gæti þurft sigur þar til að landa Íslandsmeistaratitlinum. Halldór segir þann leik vera skyldumætingu fyrir Akureyringa.

„Allir Akureyringar eiga að mæta og styðja við liðið sitt. Það var geggjaður stuðningur í dag og það var súrt að geta ekki unnið leikinn fyrir það fólk sem lagði á sig þetta ferðalag hérna í dag en við ætlum að skilja allt eftir á vellinum á fimmtudaginn og klára þetta þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert