HK kom í veg fyrir titil hjá Keflavík

Leikmenn Keflavíkur með silfurverðlaun.
Leikmenn Keflavíkur með silfurverðlaun. Ljósmynd/Víkurfréttir - Hilmar

Keflvíkingar misstu af meistaratitli 1. deildar karla í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, þegar þeir töpuðu 2:1 fyrir HK í Kórnum í dag í lokaumferð deildarinnar.

Keflavík var með eins stigs forskot á Fylki fyrir lokaumferðina en það nægði ekki. Fylkir vann ÍR 2:1 og fékk 48 stig en Keflavík fékk 46 stig í öðru sæti deildarinnar.

HK lauk þarna hinsvegar mögnuðum seinni hluta deildarinnar þar sem liðið vann tíu af ellefu leikjum sínum og endar í fjórða sæti með 42 stig eftir að hafa aðeins verið með 12 stig eftir fyrri umferðina.

Keflvíkingar byrjuðu betur og á 13. mínútu kom Leonard Sigurðsson þeim yfir eftir snögga sókn sem kom í kjölfarið á því að Keflvíkingar björguðu naumlega á marklínu eftir skalla Guðmundar Júlíussonar, 0:1.

HK tók smám saman völdin á vellinum og jafnaði metin verðskuldað á 40. mínútu. Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur varði þá tvö skot í röð en réð ekki við það þriðja þegar Eiður Gauti Sæbjörnsson renndi boltanum í netið, 1:1.

HK sótti áfram meira í seinni hálfleiknum og náði forystunni með glæsilegu marki á 72. mínútu. Eftir fyrirgjöf Axels Sigurðarsonar og skalla Ásgeirs Marteinssonar skoraði Bjarni Gunnarsson með óverjandi hjólhestaspyrnu í vinstra hornið, 2:1.

Jónas Guðni Sævarsson var nærri því að jafna fyrir Keflavík á 87. mínútu þegar hann átti skot í stöng af stuttu færi. Keflavík pressaði stíft í lokin en HK fékk hinsvegar góðar skyndisóknir þar sem Brynjar Jónasson var þrisvar nærri því að skora þriðja mark HK-inga.

HK 2:1 Keflavík opna loka
90. mín. Brynjar Jónasson (HK) á skot sem er varið Enn í skyndisókn en Sindri ver frá honum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert