Jónas í nýtt hlutverk hjá Keflavík

Jónas Guðni Sævarsson.
Jónas Guðni Sævarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Jónas Guðni Sævarsson lék í dag sinn síðasta leik með knattspyrnuliði Keflavíkur þegar það tapaði 2:1 fyrir HK í lokaumferð 1. deildar karla, Inkasso-deildarinnar, í Kórnum í Kópavogi en nú tekur hann við nýju hlutverki hjá félaginu utan vallar.

Jónas lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 2002, spilaði um skeið með KR og Halmstad í Svíþjóð, en sneri aftur á heimaslóðirnar þegar Keflavíkurliðið féll úr úrvalsdeildinni 2015. Keflavík hafnaði í öðru sæti deildarinnar og fylgir Fylki upp en missti hinsvegar af meistaratitli deildarinnar með tapinu í Kópavogi í dag.

Jónas missti sjálfur af stórum hluta tímabilsins í ár vegna meiðsla. „Hnén á mér hafa ekki verið nógu góð. Ég hef verið í basli með þau lengi, fór í aðgerð árið 2013 og þetta hefur undið upp á sig. En takmarkið sem ég setti mér þegar ég kom aftur heim í Keflavík  var að hjálpa liðinu aftur upp í efstu deild og það náðist núna. Ég er ekkert smá ánægður með það að geta kvatt á þennan hátt," sagði Jónas Guðni við mbl.is eftir leikinn.

Aðalmálið að liðið komst upp

„Það var grátlegt að vera í þeirri stöðu í dag að geta lyft bikarnum, en missa svo af því. Þetta var hinsvegar mjög erfitt í dag gegn HK og við vorum einhvern veginn undir í leiknum mest allan tímann. En ef maður hugsar þetta lengra og setur hlutina í rétt samhengi þá skiptir þessi leikur ekki öllu máli. Aðalmálið var að liðið skyldi komast upp," sagði Jónas sem kom inná og spilaði síðasta hálftíma leiksins.

Nú tekur við nýr kafli á ferlinum hjá Jónasi en hann ætlar að halda áfram að leggja sitt lóð á vogarskálarnar fyrir knattspyrnulið Keflavíkur. Hann tekur nefnilega við starfi framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar félagsins.

„Já, nú hjálpa ég til á öðrum vígstöðvum en áður. Ég byrjaði aðeins að starfa fyrir félagið í febrúar á þessu ári, í 50 prósent sölu- og markaðsstarfi, en nú tek ég við sem framkvæmdastjóri. Þar verður í nægu að snúast. Við þurfum að byggja ofan á það sem við erum búnir að gera í ár. Laugi (Guðlaugur Baldursson þjálfari) er búinn að gera gott mót og byggja upp flott lið með Eystein (Hauksson aðstoðarþjálfara) sér við hlið.“

Útlendingarnir allir áfram

„Við erum með góða útlendinga, sem eru flestir búnir að vera hjá okkur um skeið og verða allir áfram. Við erum búnir að tryggja það. Þá erum við með fullt af ungum Keflvíkingum sem hafa fengið að spila mikið, þeir eru frá 20 ára og niður í 17 ára, hafa fengið mikilvæga reynslu og eru að verða góðir leikmenn. Ofan á þetta munum við byggja en verðum samt klárlega að styrkja liðið eitthvað. Þau mál verða skoðuð núna," sagði Jónas og ítrekaði hve mikilvægt það væri fyrir félagið að hafa náð að komast upp í efstu deild á þessum tímapunkti.

„Að öðrum kosti hefðum við þurft að fara í miklu meiri aðgerðir núna, en sem betur fer náðum við því. Ég tel að það hafi skipt miklu máli að þó við höfum verið í þessari deild höfum við rekið félagið áfram eins og úrvalsdeildarklúbb og það er það sem þarf að gera. Við urðum að vera áfram á sama stigi og liðin í efstu deild," sagði Jónas Guðni Sævarsson, sem er 33 ára gamall.

Hann lék samtals 174 leiki í efstu deild hér á landi, þar af 79 með Keflavík og 95 með KR. Þar að auki lék Jónas 49 leiki með Keflavík í 1. deild og 54 deildaleiki með Halmstad, 52 þeirra í sænsku úrvalsdeildinni. Þá spilaði Jónas 7 A-landsleiki og 20 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert