KV féll með Sindra

Njarðvík og Magni fara upp í 1. deild.
Njarðvík og Magni fara upp í 1. deild. Ljósmynd/fb síða Njarðvíkur

KV er fallið úr 2. deild karla í knattspyrnu eftir 4:2-tap gegn Aftureldingu á heimavelli í dag. Höttur vann 4:3-útisigur á Vestra á sama tíma og heldur sæti sínu í deildinni. Wentzel Steinarr R Kamban, Einar Marteinsson, Jason Daði Svanþórsson og Halldór Jón Sigurður Þórðarson komu Aftureldingu í 4:0, áður en Jón Konráð Guðbergsson og Júlí Karlsson löguðu stöðuna fyrir KV. 

Friðrik Þórir Hjaltason og Viktor Júlíusson komu Vestra í 2:0 eftir aðeins þrjár mínútur er Höttur kom í heimsókn. Friðrik Þórir Hjaltason fékk hins vegar rautt spjald á tíundu mínútu sem reyndist dýrkeypt. Ignacio Gonzalez Martinez skoraði tvö mörk og þeir Brynjar Árnason og Nenad Zivanovic sitt markið hvor fyrir Hött, en Michael Saul Halpin skoraði þess á milli fyrir Vestra, en Höttur verður áfram í 2. deild. 

Víðir og Magni buðu upp á markasúpu í Sandgerði. Víðir vann þá 6:5-heimasigur á Magna en Magni var búinn að tryggja sér sæti í 1. deildinni að ári, en Víðir endar í þriðja sæti með tveimur stigum minna. 

Lars Óli Jessen skoraði þrennu fyrir Magna og Bergvin Jóhannsson og Ívar Sigurbjörnsson skoruðu sitt markið hvor. Patrik Snær Atlason skoraði tvívegis fyrir Víði og þeir Milan Tasic, Ari Steinn Guðmundsson, Patrekur Örn Friðriksson og Pawel Grudzinski skoruðu eitt mark hver.

2. deildarmeistarar Njarðvíkur unnu 3:1-sigur á Völsungi á Húsavík. Theodór Guðni Halldórsson skoraði tvö mörk fyrir Njarðvík og Arnar Helgi Magnússon eitt. Bjarki Baldvinsson lagaði stöðuna fyrir Völsung. 

Á Seyðisfirði vann Tindastóll 4:3-sigur á Huginn. Jack Clancy skoraði tvö mörk fyrir Tindastól og þeir Ragnar Þór Gunnarsson og Tanner Sica hin tvö mörkin. Gonzalo Leon skoraði tvö fyrir Huginn og Nik Anthony Chamberlain eitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert