Fjönir bjargaði sér - KR ekki í Evrópu

Úr leik KR og Fjölnis í dag.
Úr leik KR og Fjölnis í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölnir og KR gerðu 2:2-jafntefli í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. Fjölnir getur ekki lengur fallið úr deildinni og KR getur ekki lengur náð í Evrópusæti. Fjölnir er nú með 25 stig, fjórum stigum meira en Víkingur Ólafsvík sem er í fallsæti á meðan KR er fjórum stigum frá FH fyrir síðustu umferðina. 

Fyrri hálfleikurinn var með rólegasta móti, en Birnir Snær Ingason komst tvívegis nálægt því að skora fyrir Fjölni. Í bæði skiptin fór hann illa með Morten Beck í vörn KR, í fyrra skiptið fór skotið hans yfir og í síðari skiptið varði Beitir Ólafsson stórglæsilega frá honum. KR fékk ekki eitt einasta alvöru færi allan hálfleikinn og var staðan því markalaus í leikhléi.

Það tók KR-inga aðeins þrjár mínútur að komast yfir í síðari hálfleik. Daninn Tobias Thomsen skoraði þá af stuttu færi eftir skalla Óskars Arnar Haukssonar sem hafnaði í slánni. Thomsen var fyrstur að átta sig og skoraði af öryggi.

Fjölnismenn brugðust nokkuð vel við markinu og á 61. mínútu var staðan orðin 1:1. Ingimundur Níels Óskarsson skoraði þá beint úr aukaspyrnu rétt utan teigs, stöngin inn. Átta mínútum síðar voru KR-ingar hins vegar aftur komnir yfir. Ástbjörn Þórðarson skoraði þá með góðu skoti eftir sendingu Arnórs Sveins Aðalsteinssonar.

Staðan var 2:1 í aðeins þrjár mínútur því Birnir Snær Ingason jafnaði á 72. mínútu með góðu skoti eftir sendingu Marcus Solberg.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

Fjölnir 2:2 KR opna loka
90. mín. Það verða fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert