Þetta er hrikalega grátlegt

Skúli Jón Friðgeirsson var fyrirliði KR í dag.
Skúli Jón Friðgeirsson var fyrirliði KR í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum mjög fúlir, við fengum þau úrslit sem við vildum úr hinum leikjunum og það er hrikalega grátlegt að ná ekki að klára okkar leik, sérstaklega þegar við komumst tvisvar yfir," sagði Skúli Jón Friðgeirsson, fyrirliði KR, eftir 2:2-jafntefli gegn Fjölni í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í dag. KR getur ekki lengur náð Evrópusæti. 

„Við vorum þokkalega þéttir og skoruðum tvö fínt mörk en við fáum á okkur tvö einföld mörk. Þetta var barningur, það er ekki mikill fótbolti þegar völlurinn er svona. Þetta snýst um að halda markinu okkar hreinu, ef við hefðum gert það í dag hefðum við unnið."

„Eina sem ég pæli í þegar við skoruðum var að við yrðum að vera klárir, það voru bara 20 mínútur eftir þegar við skorum annað markið okkar, ég veit ekki hvað gerðist."

Skúli var ánægður með þá ungu leikmenn sem spiluðu með KR í dag. Ástbjörn Þórðarson, Guðmundur Andri Tryggvason og Óliver Dagur Thorlacius voru allir í byrjunarliðinu. 

„Þeir spiluðu frábæran leik, Ási skoraði, Óliver var frábær á miðri miðjunni og Guðmundur Andri var að vesenast aðeins en það er frábært fyrir klúbbinn að svona góðri strákar séu að koma upp."

KR á leik gegn Stjörnunni í síðustu umferðinni, en lítið er undir í þeim leik. 

„Síðasti leikurinn er á móti Stjörnunni á heimavelli og við verðum að mæta til að sýna að við séum betri en þeir, það gefur okkur kannski eitthvað fyrir veturinn," sagði Skúli að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert