Þetta er saga tímabilsins - áfangamark Gunnars

Eyjamenn fagna marki Gunnars Heiðars Þorvaldssonar úr vítaspyrnu á Kópavogsvelli …
Eyjamenn fagna marki Gunnars Heiðars Þorvaldssonar úr vítaspyrnu á Kópavogsvelli í dag. mbl.is/golli

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, sóknarmaður og aðstoðarþjálfari ÍBV, varð í dag sjötti leikmaðurinn í sögu ÍBV til að skora 50 mörk fyrir félagið í efstu deild karla í knattspyrnu. En Eyjamenn töpuðu 3:2 fyrir Breiðabliki á marki í uppbótartíma og eru enn í fallbaráttu fyrir lokaumferðina.

Sveinn tryggði Blikum sætið.

„Það hefur verið vandamál hjá okkur að halda ekki forystunni nægilega lengi eins og sást vel í dag. Við fengum tvisvar á okkur mark nokkrum mínútum eftir að hafa náð forystunni. Þetta skrifast á einbeitingarleysi og slæm mistök sem á að vera hægt að koma í veg fyrir.

En því miður, þá hefur þetta verið saga tímabilsins. Við erum þó enn með örlögin í okkar eigin höndum sem er alltaf kostur, og nú verða menn að vera virkilega einbeittir fyrir leikinn gegn KA á heimavelli. Það þýðir ekkert annað," sagði Gunnar við mbl.is.

Hann gerði oft usla í vörn Breiðabliks í leiknum í dag ásamt því að skora seinna mark liðsins úr vítaspyrnu og er langmarkahæsti leikmaður ÍBV í deildinni í sumar með 8 mörk.

„Já, ég er í fínu formi, enda tók ég þá ákvörðun eftir meiðslin í fyrra að koma til baka og sýna að maður gæti eitthvað ennþá og gefið eitthvað af sér fyrir liðið, auk þess að hjálpa Kristjáni í þjálfuninni. Það hefur gengið vel en því miður hafa hlutirnir ekki fallið með okkur í deildinni.

Okkur finnst við vera búnir að spila betur en það að vera í þessari stöðu. Svo lítur maður á töfluna, hún segir að við séum í þessum málum í dag og höfum verið í þeim undanfarnar vikur. Við getum meira - en ég vil ekki segja að við séum óheppnir. Hver er sinnar gæfu smiður. Ef þú ert ekki á tánum, þá færðu ekki neitt. Þetta er bara svoleiðis, þannig hefur þetta verið, því miður. En það er úrslitaleikur á laugardaginn kemur og við erum klárir," sagði Gunnar Heiðar.

Hann er 35 ára gamall og er ekki búinn að taka ákvörðun um hvort hann haldi áfram að spila á næsta tímabili. „Ég er ekki farinn að hugsa svo langt. Það eina sem kemst að í mínum huga er leikurinn við KA á laugardaginn og eftir hann tek ég ákvörðun," sagði Gunnar Heiðar sem náði 50 mörkunum í aðeins 108 leikjum en hann hefur leikið meirihluta ferilsins sem atvinnumaður erlendis.

Þeir fimm leikmenn ÍBV sem áður hafa náð að skora 50 mörk fyrir félagið í efstu deild eru Tryggvi Guðmundsson (75), Steingrímur Jóhannesson (72), Sigurlás Þorleifsson (60), Tómas Pálsson (55) og Örn Óskarsson (50).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert