Viljum ná 4. sætinu

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Túfa, Srdjan Tufegdzic þjálfari KA, var ánægður í leikslok er mbl.is spjallaði við hann eftir 2:1 sigur liðsins á Grindavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

„Ég er mjög ánægður með þessi stig og heildarárangur liðsins í sumar. Þetta er held ég næst besti árangur KA í stigasöfnun í efstu deild. Ég er mjög stoltur af strákunum og þetta er bara eitt skref af mörgum góðum sem við höfum tekið í sumar.

Við þurftum að berjast gríðarlega til að ná þessum stigum. Grindavíkurliðið er virkilega gott og með góðan þjálfara svo þetta var virkilega erfitt. Mér fannst samt að við hefðum átt að klára þetta í fyrri hálfleik. Við klúðruðum víti en það var ekki málið. Við bara nýttum ekki þær góðu stöður sem við komumst í. Ég sagði við strákana í hálfleik að þetta yrði erfitt, þungur völlur og mótvindur en við börðumst vel og unnum.“

Hvernig líst þér á að fara til Vestmannaeyja í síðustu umferðinni og spila við lið í bullandi fallhættu?

„Bara vel. Stundum segja menn að leikir skipti lið ekki máli en ég er ekki sammála því. Við viljum ná fjórða sætinu og ætlum að reyna að vinna ÍBV“ sagði Túfa að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert