Willum óviss með framhaldið hjá KR

Willum Þór Þórsson er ekki viss hvort hann haldi áfram …
Willum Þór Þórsson er ekki viss hvort hann haldi áfram með KR. mbl.is/Eggert

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, var að vonum svekktur eftir 2:2-jafntefli gegn Fjölni í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í dag. KR á ekki lengur möguleika á að ná Evrópusæti eftir leikinn. 

„Þetta er auðvitað sárt, við ætluðum okkur svo sannarlega að spila okkur upp í úrslitaleik fyrir síðustu umferðina. Við gerðum allt hér í dag til þess, mér fannst KR spila feykilega vel í dag en Fjölnisliðið er býsna öflugt. Við náðum forystu tvisvar en náðum ekki að halda, því miður."

Hvað klikkaði hjá KR í dag? 

„Þetta var fjörugur leikur og mörk verða oftast vegna einhverra mistaka einhversstaðar, það voru allir að reyna að gera sitt besta og koma í veg fyrir þetta. Fjölnismenn skoruðu tvö góð mörk og komu á okkur af miklu afli þegar þeir lentu undir og náðu að jafna, það er sárt en svona er þettta. Við vorum full ákafir í að halda, sérstaklega í seinna markinu, menn voru að selja sig svolítið í því marki. Með meiri yfirvegun hefðum við getað komið í veg fyrir það, hugarfarið var í lagi."

Ástbjörn Þórðarson, Guðmundur Andri Tryggvason og Óliver Dagur Thorlacius voru allir í byrjunarliði KR á meðan fimm leikmenn úr 2. flokki voru á meðal varamanna liðsins. 

„Ég var ánægður með þá alla, þeir voru feykilega góðir. Ég þekki þá mjög vel og þeir eru að þroskast og dafna. Þeir komu inn í liðið í dag á réttum forsendum. Við þurfum á þeim að halda, þeir eru næstir inn og þeir hafa unnið sér inn fyrir því. Framtíðin er björt hjá KR-ingum. Það voru allt strákar úr 2. flokki, plús Garðar í dag. Það eru efnilegir strákar sem eru Íslandsmeistarar í 2. flokki. Þeir spiluðu allir með okkur í vetur, svo við þekkjum vel til þeirra."

Hvernig lítur Willum á framtíðina þegar einn leikur er eftir? 

„Ég hef reynt að halda fókus á þetta verkefni. Við vinnum vel í vikunni og komum staðráðnir í að vinna síðasta leikinn og fikra okkur áfram. Evrópusætið er fjarlægt en þegar við förum í KR búning er ekkert nema sigur sem kemur til greina."

Willum gæti verið á leiðinni á þing með Framsóknarflokknum, en þingkosningar fara fram 28. október næstkomandi, mun það hafa áhrif á framtíð Willums með KR? 

„Það gæti gert það, ég er búinn að reyna að einbeita mér að fótboltann og KR. Það kemur að því að ég þurfi að taka einhverja ákvörðun," sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert