Æfði golf og mætti bara í leikina í fótboltanum

mbl.is/Birnir Snær Ingason.
mbl.is/Birnir Snær Ingason. mbl.is/Árni Sæberg

Birnir Snær Ingason, tvítugur kantmaður í liði Fjölnis, hefur verið áberandi hjá Grafarvogsliðinu í sumar.

Hann er í hópi efstu manna í einkunnagjöf Morgunblaðsins og var í stóru hlutverki í lykilleikjum Fjölnismanna á fimmtudag og sunnudag þegar þeir sigruðu FH, 2:1, og gerðu jafntefli, 2:2, við KR, og tryggðu sér með því áframhaldandi sæti í deildinni.

Birnir lét mikið að sér kveða í báðum leikjunum og skoraði seinna jöfnunarmarkið gegn KR, sitt fjórða mark í deildinni í ár. Hann sagði við Morgunblaðið að það væri mikil léttir að vera laus úr fallbaráttunni þar sem Fjölnir var kominn í mjög tvísýna stöðu þegar kom fram á haustið.

„Já, virkilega. Þetta tímabil hefur verið erfitt og þegar fjórir leikir voru eftir leit þetta ekkert sérstaklega vel út fyrir okkur. Við áttum fyrir höndum mjög erfiða leiki en það var afar sterkt að vinna FH á heimavelli og ná í stig á móti KR. Það var virkilega gott að heyra eftir KR-leikinn að við værum sloppnir við fall og gætum farið áhyggjulausir í seinasta leikinn í Grindavík,“ sagði Birnir.

Fjölnir náði fjórða sæti í fyrra, sem er besti árangurinn í sögu félagsins, og Birnir tók undir að það væru viss vonbrigði að hafa ekki fylgt því betur eftir.

„Við ætluðum okkur að bæta árangurinn frá því í fyrra en við misstum marga leikmenn og því þurfti að gera miklar breytingar. Tímabilið fór ágætlega af stað hjá okkur en síðan gekk ekkert eftir það. En þegar litið er á þá leikmenn sem fengu tækifæri í liðinu í ár þá eru margir þeirra mjög ungir og það lofar góðu fyrir næsta ár.“

Sjá allt viðtalið við Birni Snæ í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Þar er einnig úrvalslið 21. umferðar og staðan í M-gjöfinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert