Þetta mót var endalaust

Bryndís markvörður sigri hrósandi að leikslokum. Ræðir þarna við Láru …
Bryndís markvörður sigri hrósandi að leikslokum. Ræðir þarna við Láru Einarsdóttur en fyrir aftan eru Margrét Árnasdóttir og Rut Matthíasdóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, markvörður Íslandsmeistara Þórs/KA í knattspyrnu, söðlaði um fyrir tímabilið og yfirgaf ÍBV til að koma norður. Hún átti frábært tímabil í markinu hjá norðanliðinu og fékk ekki mörg mörk á sig.

Að vonum var hún kampakát eftir 2:0 sigur liðs síns gegn FH í kvöld, sem tryggði norðanliðinu Íslandsmeistaratitilinn fyrir framan 1.400 stuðningsmenn á Akureyri. 

Er þetta fyrsti titillinn þinn? 

„Nei, ég var með Val fyrir nokkrum árum og þá unnum við einhverja titla. Þetta er hins vegar allt öðruvísi fyrir mig núna þar sem ég er í miklu stærra hlutverki en hjá Val. Þetta er miklu, miklu sætara.“ 

Þú horfðir á fyrrverandi samherja þína í ÍBV verða bikarmeistarar fyrir nokkrum dögum. Það hefur ekki hvarflað að þér að þessi vistaskipti þín hafi verið tóm della? 

„Það var gott að ÍBV náði þessu fyrst það vorum ekki við. Ég skal þó vera hreinskilin. Það var pínu sárt að sjá það. Ég var samt ótrúlega ánægð fyrir þeirra hönd.“ 

Hvernig er þetta sumar búið að vera? Þið eruð á toppnum allt mótið, eigið átta stig á Breiðablik fyrir þremur umferðum en tvö stig fyrir leikina í dag. 

„Þetta var orðið dálítið stressandi undir lokin, ég viðurkenni það. Það þroskar okkur mjög mikið sem einstaklinga og lið að geta haldið út allt sumarið. Þetta mót var endalaust og mikið um hlé á því. Það var því erfitt að halda fókus og sérstaklega núna í lokin þegar þetta gat allt farið í vaskinn. Það hefði orðið viðbjóðslega sárt að missa af titlinum.“ 

Hvað um tvo síðustu leiki ykkar. Aðstæður voru ekki þær bestu, völlurinn blautur og þungur og þið virtust ekki ná upp ykkar eðlilega leik. 

„Aðstæðurnar spiluðu eitthvað inn í en það voru andstæðingarnir sem gerðu okkur erfitt fyrir. Grindavík og FH undirbjuggu sig bara rosalega vel gegn okkur og spiluðu vel. Liðin eiga bæði hrós skilið og ég tek ekkert af þeim.“ 

Verður þú áfram með Þór/KA? 

„Nú þarf bara að setjast niður og fara yfir málin í rólegheitum,“ sagði Rangæingurinn Bryndís Lára að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert