Gast lesið úr augunum á þeim

Lillý Rut Hlynsdóttir, Halldór Jón Sigurðsson og Sandra María Jessen …
Lillý Rut Hlynsdóttir, Halldór Jón Sigurðsson og Sandra María Jessen með Íslandsbikarinn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Halldór Jón Sigurðsson er þjálfari Íslandsmeistara Þórs/KA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Hann kom fram í hverju viðtalinu á fætur öðru, allt frá fyrsta leik, með yfirlýsingar um að lið hans ætlaði sér titilinn og kallinn stóð við stóru orðin.

Þór/KA var spáð 4. sæti fyrir mót en var á toppnum í allt sumar þótt vissulega hafi titillinn staðið tæpt á lokasprettinum eftir tvö töp í síðustu tveimur útileikjum liðsins.

Í dag var Þór/KA hins vegar á heimavelli, vel stutt af 1.400 áhorfendum og þurfti sigur gegn öflugum FH-ingum. Markalaust var fram á 74. mínútu en þá braut Sandra María Jessen ísinn og norðankonur bættu við marki skömmu síðar. Titillinn varð þeirra og Doninn á Akureyri, eða bara Donni, eins og þjálfarinn er ávallt kallaður, var gripinn í uppgjörsviðtal. 

Þið voruð að gera Akureyringa og aðra stuðningsmenn gráhærða. Titillinn var í augsýn ansi lengi en loks náðuð þið að koma honum inn fyrir borðstokkinn.

„Það er miklu skemmtilegra að hafa þetta svona, hafa meiri spennu í þessu. Við vorum hins vegar nokkuð viss um hvernig FH myndi spila, með fimm manna varnarlínu og mjög þéttar til baka. Það var virkilega erfitt að brjóta þær á bak aftur. Við vorum að skapa færi í fyrri hálfleik sem ekki nýttust og það var smá súrt að vera ekki yfir í hálfleik.

Sandra María skorar svo frábært mark fyrir okkur af miklu harðfylgi og eftir það hafði ég engar áhyggjur þar sem FH var varla búið að fá færi í leiknum. Það var hrikalega sterkur varnarleikur sem skilaði þessum sigri og hann hefur umfram allt skilað okkur titlinum. Liðið er búið að spila frábæra vörn í allt sumar, nema kannski í tveimur leikjum, og það vinnur titla.“ 

Hvarflaði aldrei að þér að þetta myndi allt hrynja í hausinn á ykkur og þið mynduð missa af titlinum? 

„Nei. Ég bara neita því. Fólk sem er í kringum liðið og stelpurnar myndu segja það sama og ég. Það veit upp á hár hvað það er mikil orka í þessum hóp og stelpurnar voru með það á hreinu frá fyrsta degi að þær ætluðu að vinna þennan titil. Dagana fyrir þennan leik gastu bara lesið það úr augunum á þeim að það var ekkert að fara að stoppa þær í dag.“

Eftir á að hyggja, hefði ekki verið gáfulegt að sættast á gott jafntefli og stig í Grindavík í stað þess að taka áhættu og sækja öll stigin? Þá hefði jafntefli dugað í leiknum í dag.

„Jú, það er engin spurning. Ég gerði mistök í Grindavík og fór vel yfir það með sjálfum mér. Ég er bara eins og stelpurnar. Við erum í ákveðnu verkefni og maður gerir sín mistök. Úr því sem komið var í þeim leik þá hefðum við átt að halda í stigið og þétta raðirnar. Akkúrat núna er mér nákvæmlega sama því við kláruðum þetta og það er bara geggjað.“

Svo er það þessi staðreynd. Þór/KA verður meistari 2012 með nýjan þjálfara og núna aftur með nýjan þjálfara. Er ekki málið að segja þér upp og fá einhvern annan þjálfara?

„Ég myndi mæla með því ef liðið vinnur alltaf með nýjan þjálfara. Nei, nei. Ég held að þetta sé búið að ganga ágætlega. Það gekk mjög vel hjá Jóa og Mola. Þeir unnu ótrúlega flott starf og skiluðu flestum leikmönnum á þann stað sem þeir eru núna. Ég er bara búinn að vera í eitt ár. Það tekur ekki eitt ár að búa til góða leikmenn. Þeir voru búnir að búa til gott lið, ég tek bara við og kem með mitt skipulag. Ég legg mikið upp úr hugarfarslegum þáttum og náði að tvinna það saman við gæðin í liðinu og alla vinnuna sem leikmenn hafa lagt á sig,“ sagði meistarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert