Sá mikilvægasti í sögunni

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hannes Þór Halldórsson, aðalmarkvörður íslenska landsliðsins, stóð ekki á milli stanganna þegar Íslendingar mættu Tyrkjum síðast á útivelli. Það var fyrir tveimur árum í Konyna í undankeppni EM þar sem Tyrkir tryggðu sér 1:0 sigur með aukaspyrnumarki undir lokin. Á æfingu á Laugardalsvellinum fyrir leikinn gegn Tyrkjum fór Hannes Þór úr axlarlið og var frá keppni næstu mánuði þar á eftir en tókst með dugnaði og eljusemi að komast yfir meiðslin og lék með landsliðinu á EM í Frakklandi.

,,Ætli maður verði ekki að segja að þessi leikur við Tyrkina á föstudaginn sé mikilvægasti leikur okkar í sögunni. Þetta er risaleikur og við höfum vitað það í langan tíma að þetta verður erfiður leikur sem hefur mikla þýðingu upp á framhaldið,“ sagði Hannes Þór við Morgunblaðið í Antalya í gær en eftir upphitun landsliðsins kenndi Hannes sér meins og yfirgaf æfinguna með sjúkraþjálfara. Fregnir úr herbúðum KSÍ í gærkvöldi hermdu að þetta væru smávægileg meiðsli.

,,Ég lá á sjúkrabekknum heima í Reykjavík þegar við mættum Tyrkjunum á útivelli síðast en ég held að það hjálpi liðinu að hafa tekið þátt í þessum leik fyrir tveimur árum. Það verða krefjandi og þrúgandi aðstæður en það er eitthvað sem við flestir í landsliðinu þekkjum vel. Markmið okkar er skýrt. Við förum í leikinn til þess að vinna hann. Sigur myndi koma okkur í stöðu sem við óskum okkur. Eitt stig myndi halda okkur á lífi en við viljum vinna þennan leik. Riðillinn er galopinn eins menn spáðu þegar dregið var í riðilinn og það lítur allt út fyrir að úrslitin í honum ráðist á síðustu mínútunum.

Það er draumur okkar allra að komast á HM og ég veit að við þráum það svo mikið að hver einasti leikmaður mun gefa allt sem á hann og meira til svo að þetta takist hjá okkur. Við höfum fulla trú á við getum staðið uppi sem sigurvegarar á föstudaginn.“

Nánar er fjallað um viðureign Tyrklands og Íslands í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert