Harpa tekur með sér nesti til Rússlands

Harpa Þorsteinsdóttir í baráttu í leiknum gegn Rossijanka í kvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir í baráttu í leiknum gegn Rossijanka í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Harpa Þorsteinsdóttir, framherji Stjörnunnar, var svekkt í leikslok eftir 1:1 jafntefli við rússneska meistaraliðið Rossijanka í fyrri viðureign liðanna í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í kvöld.

Stjarnan hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleik en náði aðeins að skora eitt mark. Rússarnir voru hins vegar sterkir eftir hlé og uppskáru dýrmætt jöfnunarmark sem gefur þeim forskot fyrir seinni leikinn ytra.

„Það kom mér á óvart hvað við yfirspiluðum þær í fyrri hálfleik og við hefðum átt að vera komnar í meiri forystu fyrir hálfleikinn. Það var auðveldara fyrir þær að koma grimmar út í seinni hálfleikinn og það sem við sjáum helst eftir er að hafa ekki nýtt færin í fyrri hálfleik,“ sagði Harpa og segir svekkelsið mikið.

„Það er fúlt að fá á okkur mark, þær eiga varla færi í leiknum. Enn einu sinni fáum við á okkur mark úr föstu leikatriði og það er mikið vandamál sem við þurfum að laga. Þetta má ekki gerast og við erum allar gríðarlega svekktar með það,“ sagði Harpa.

Hún tók þó jákvæða punkta út úr leiknum, en þetta er í fyrsta sinn sem Stjarnan tapar ekki í leik á þessu stigi keppninnar.

„Við vissum ekkert við hverju við ættum að búast, en mér fannst við samt heilt yfir sterkari aðilinn. Við eigum enn þá fullt inni og stórt tækifæri til að komast áfram úti. Þetta eru bestu úrslit sem Stjarnan hefur náð í Evrópukeppni og við tökum það með okkur og ætlum að bæta við söguna í leiknum úti,“ sagði Harpa.

Þetta er í fjórða sinn sem Stjarnan mætir rússnesku liði og því fjórða Rússlandsferðin fram undan.

„Við rennum alltaf blint í sjóinn þegar við komum þangað út. Það eina sem ég veit er að ég ætla að vera með mat í töskunni, því sama hversu oft okkur er sagt hvað við verðum á góðu hóteli þá getum við engu treyst í Rússlandi. Í fyrstu ferðinni þá fengum við vatn í skál og soðið egg ofan í, og það var kallað kvöldmatur,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir létt í bragði að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert