Stjarnan fór illa að ráði sínu

Katrín Ásbjörnsdóttir með boltann gegn Rossijanka í gær.
Katrín Ásbjörnsdóttir með boltann gegn Rossijanka í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það voru svekktar Stjörnukonur sem gengu af velli í Garðabænum í haustkuldanum í gærkvöldi, jafnvel þó að liðið hafi þá náð besta árangri sínum í Evrópukeppni. 1:1 jafntefli við rússneska meistaraliðið Rossijanka í fyrri viðureign liðanna í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu eru hins vegar afar svekkjandi úrslit fyrir Garðbæinga, en liðið fór einfaldlega illa að ráði sínu.

„Við vitum að við áttum að vinna þennan leik, það er alveg á hreinu, enda fengum við tækifæri til þess,“ sagði Katrín Ásbjörnsdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við Morgunblaðið eftir leik. Hún skoraði eina mark liðsins úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik, en Stjarnan hefði hæglega getað skorað nokkur mörk til viðbótar fyrir hlé. Það gekk ekki heldur gengu Rússarnir á lagið í síðari hálfleik og fögnuðu jafnteflinu innilega í leikslok.

„Við spiluðum vel, í það minnsta í fyrri hálfleik, en sofnuðum aðeins á verðinum í þeirra marki. Þær komu grimmari út í seinni hálfleikinn og við spiluðum ekki eins og fyrir hlé. Við þurfum að halda jafnvægi og ekki slaka á í seinni hálfleik eins og við gerðum núna,“ sagði Katrín.

Markið sem Stjarnan fékk á sig var algjört óþarfamark þegar fylgt var eftir aukaspyrnu af löngu færi. Það gefur Rússunum dýrkeypt útivallarmark í síðari leiknum í Rússlandi í næstu viku þar sem það dugar ekkert annað fyrir Stjörnuna en að sækja.

Nánar er fjallað um leik Stjörnunnar og Rossijanka í Meistaradeildinni í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert