Tilfinningin sætari nú en síðast

Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason voru svo sannarlega kátir …
Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason voru svo sannarlega kátir í leikslok. mbl.is/Eggert

„Þetta er yndislegt tilfinning og verður ekki betri,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, annar af markaskorurunum íslenska landsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is í kvöld eftir sigurinn á móti Kosóvó.

„Þvílíka ruglið að taka þennan riðil og pakka honum saman. Við vorum í eina riðlinum sem var með fjórar þjóðir sem voru með á EM og það sýnir hversu frábær árangur þetta er. Það eru ekki margir sem spáðu því að við myndum vinna riðilinn en við stefndum alltaf á að taka eitt af tveimur efstu sætunum og það var magnað að ná að lokum að vinna riðilinn,“ sagði Jóhann Berg.

„Tilfinningin er sætari nú en fyrir tveimur árum þegar við tryggðum okkur inn á EM. Þetta er miklu stærra afrek. Þeir voru mjög margir sem spáðu því að við myndum ekki komast á annað stórmótið í röð og sérstaklega þegar þeir sáu riðilinn sem við vorum í. Þetta er ótrúlegt lið sem við eigum og ótrúlega góð umgjörð í kringum það. Starfsfólkið leggur á sig gríðarlega mikla vinnu og það á þakkir skildir frá okkur sem og stuðningsmennirnir sem hafa stutt okkur frábærlega.

Jóhann Berg segir að menn hafi verið svekktir eftir tapið gegn Finnum en því hafi verið svarað með miklum stæl.

„Við vissum alveg að okkur biði erfiðir leikir í þessum riðli. Finnaleikurinn var mikill skellur en það sem við gerðum eftir það var ótrúlegt. Við leiðréttum misstökin sem við gerðum í þeim leik og kláruðum riðilinn með stæl.“

Spurður hvort hann eigi sér óskamótherja á HM sagði Jóhann Berg;

„Mér er alveg sama hverjum við mætum. Ég hlakka bara mikið til að fara á HM og upplifa það. Við sýndum það á EM í fyrra og í þessari riðlakeppni að við gefum öllum liðum erfiðan leik. Nú tekur við skemmtilegt kvöld þar sem við ætlum að fagna þessu afreki,“ sagði Jóhann Berg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert