Hefði viljað vinna leikinn

Eyjólfur Sverrisson.
Eyjólfur Sverrisson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég hefði viljað vinna leikinn eins og hann þróaðist en engu að síður var þetta gott stig sem við náðum í á erfiðum útivelli,“ sagði Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U21 árs landsliðsins, við mbl.is eftir markalaust jafntefli sinna manna gegn Albönum í undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld.

„Albanarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og við vorum ekki alveg nógu vel staðsettir til að byrja með. En hægt og bítandi náðum við tökum á leiknum. Við náðum að halda boltanum betur innan liðsins og fyrir utan fyrstu 15-20 mínúturnar vorum við betri aðilinn í leiknum.

Við fengum tvö virkilega góð færi sem við hefðum þurft að nýta en Albanarnir fengu eitt gott færi í leiknum. Við hefðum þurft að vera með aðeins betri ákvarðanatökur á síðasta þriðjungi vallarins en heilt yfir var ég ánægður með leik liðsins og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Albanarnir komust varla í boltann í seinni hálfleiknum,“ sagði Eyjólfur við mbl.is.

„Það er frábær stígandi í liðinu og mér fannst virkilega gaman að sjá hversu öryggir við vorum á boltanum,“ sagði Eyjólfur.

Íslendingar eru með 4 stig eftir þrjá leiki í undankeppninni og næstu tveir leikir þeirra eru einnig á útivelli. Þeir mæta Spánverjum 9. nóvember og Eistum 14. nóvember. Ásgeir Sigurgeirsson, sem fékk rautt spjald í kvöld, verður í banni gegn Spánverjum sem og Samúel Kári Friðjónsson sem fékk í kvöld sitt annað gula spjald í undankeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert