Þessar freista þess að þræða nálaraugað

Hallbera Guðný Gísladóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Ingibjörg …
Hallbera Guðný Gísladóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir eru allar í leikmannahópi íslenska liðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu á fyrir höndum gríðarlega mikilvæga og jafnframt erfiða útileiki í undankeppni HM á næstunni. Liðið kemur saman á mánudag og mætir svo einu besta liði heims, Þýskalandi, næsta föstudag. Eftir það heldur hópurinn til Tékklands og leikur annan leik sem gæti skipt sköpum í tilrauninni til að komast í fyrsta sinn í lokakeppni HM.

Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari tilkynnti liðsval sitt í gær. Hann hélt sig svo að segja við sama hóp og vann Færeyjar 8:0 í fyrsta leik undankeppninnar. Allir 18 leikmennirnir sem voru í hópnum í þeim leik eru í 20 manna hópnum sem Freyr valdi nú. Þar eru svo einnig Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður Breiðabliks, og hinn 19 ára gamli nýliði Selma Sól Magnúsdóttir sem einnig leikur með Breiðabliki. Anna Rakel Pétursdóttir úr Þór/KA og Sigrún Ella Einarsdóttir, sem nú leikur hjá Fiorentina á Ítalíu, eru auk þess viðbúnar því að fá símtal ef krafta þeirra gerist þörf.

Hólmfríður Magnúsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir eru meðal þeirra sem ekki voru valdar, en Freyr sagði meiðsli enn angra Hólmfríði.

Færum í hlutverk sem við viljum ekki vera í

Leiðin á HM í Frakklandi, sem fram fer 2019, er afar torfær en aðeins átta sæti af 24 á mótinu eru í boði fyrir Evrópuþjóðirnar, auk þess sem heimakonur í Frakklandi eiga reyndar öruggt sæti. Ísland þarf því að vinna sinn riðil til að vera öruggt um að komast á HM. Liðin með bestan árangur í 2. sæti í fjórum undanriðlum af sjö komast svo í umspil um eitt laust sæti, svo að ekki er einu sinni víst að 2. sæti dygði til að falla ekki úr keppni. Íslenska liðið er meðvitað um þetta og á fréttamannafundi í gær nefndi Freyr aðeins tvær niðurstöður sem hann yrði ánægður með úr komandi ferðalagi; að fá fjögur eða sex stig. Hann vildi þó ekki meina að HM-draumurinn væri úti ef báðir leikir töpuðust:

„Keppnin væri ekki búin en við myndum setja okkur í hlutverk sem við viljum ekki vera í. Við þyrftum þá að fara að elta og ekki bara í okkar riðli heldur öðrum riðlum líka. Við færum að elta þegar kæmi að stigasöfnun fyrir 2. sætið. Það er ekki staða sem við viljum lenda í,“ sagði Freyr, sem sá Þýskaland merja 1:0-útisigur á Tékklandi með sjálfsmarki í síðasta mánuði.

Íslenski hópurinn hefur þurft að glíma við þann vanda að margir leikmanna liðsins hafa fyrir nokkru lokið sínu keppnistímabili, en tvær vikur eru frá lokum Íslandsmótsins. Freyr sagði ýmislegt hafa verið gert til að halda leikmönnum við, en sumir þeirra hafa til að mynda æft með 2. flokki drengja hjá sínu félagsliði auk þess sem Sigríður Lára Garðarsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir æfðu með Vålerenga í Noregi, eins og Morgunblaðið greindi frá í vikunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert