Brynjar Björn tekur við HK

Brynjar Björn Gunnarsson.
Brynjar Björn Gunnarsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Brynjar Björn Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og atvinnumaður um árabil, hefur verið ráðinn þjálfari 1. deildarliðs HK og tekur þar við af Jóhannesi Karli Guðjónssyni, sem var á dögunum ráðinn til Skagamanna. Samkvæmt heimildum mbl.is eru samningsmálin í höfn.

Brynjar hefur síðustu fjögur árin verið aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, við hlið Rúnars Páls Sigmundssonar, og tók þar þátt í fyrsta Íslandsmeistaratitli Garðabæjarliðsins. 

Brynjar, sem er 42 ára gamall, lék með meistaraflokki KR frá 1995 til 1997 en síðan með norsku liðunum Vålerenga og Moss, sænska liðinu Örgryte og ensku liðunum Stoke, Nottingham Forest, Watford og Reading. Með Reading spilaði Brynjar tvö ár í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann spilaði 43 leiki og skoraði 3 mörk.

Hann menntaði sig í þjálfun síðustu árin í atvinnumennskunni og kom að þjálfun hjá Reading á meðan hann var þar enn leikmaður.

Brynjar sneri heim 2013 og lék það ár með KR en lagði skóna á hilluna eftir það, en hefur þó reyndar aðeins komið við sögu með KFG í 3. og 4. deild undanfarin tvö ár.

Samtals lék Brynjar 431 deildaleik á ferlinum og er í hópi leikjahæstu knattspyrnumanna Íslands frá upphafi. Þá er hann í hópi leikjahæstu landsliðsmanna Íslands en Brynjar spilaði 74 landsleiki frá 1998 til 2009.

HK hafnaði í 4. sæti 1. deildarinnar í ár eftir frábæra seinni umferð þar sem liðið vann tíu af ellefu leikjum sínum.

Uppfært kl. 21.40:
HK hefur staðfest ráðningu Brynjars Björns á vef sínum og þar kemur fram að ráðningin sé til tveggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert