„Eru þið svona mörg frá Íslandi?“

Frá blaðamannafundinum. Frá vinstri: Babett Peter, Steffi Jones og fjölmiðlafulltrúi …
Frá blaðamannafundinum. Frá vinstri: Babett Peter, Steffi Jones og fjölmiðlafulltrúi Þjóðverja. mbl.is

„Eru þið svona mörg frá Íslandi?“ sagði fjölmiðlafulltrúi þýska kvennalandsliðsins þegar fimm fulltrúar frá þremur íslenskum fjölmiðlum sátu blaðamannafund þýska liðsins á Brita-leikvanginum í Wiesbaden í dag en Þýskaland og Ísland eigast við í undankeppni HM í knattspyrnu á morgun.

„Það er virðingarvert. Við áttum ekki von á Íslendingum,“ bætti hún við en auk Mbl.is/Morgunblaðsins voru þar fulltrúar frá RÚV og Fótbolta.net. 

Áhugi þýskra fjölmiðla á leiknum og þýska landsliðinu er greinilega talsverður en um 25 þýskir fjölmiðlamenn sátu fundinn. 

3.500 miðar hafa verið seldir á leikinn á morgun og áhorfendafjöldinn gæti orðið á milli 5 og 10 þúsund ef marka má þá Þjóðverja sem mbl.is hefur tekið púlsinn á. Leikvangurinn tekur 13.500 manns og hentar því ágætlega fyrir leik af þessari stærðargráðu. 

Ekki er vitað til þess að margir Íslendingar verði á leiknum en KSÍ hefur þó fengið nokkrar fyrirspurnir um leikstaðinn og leiktímann frá Íslendingum sem búa á svæðinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert