Hef allt að sanna næsta sumar

Björgvin Stefánsson ásamt Rúnari Kristinssyni þjálfara KR, eftir að Björgvin …
Björgvin Stefánsson ásamt Rúnari Kristinssyni þjálfara KR, eftir að Björgvin og Kristinn Jónsson voru kynntir sem nýir leikmenn félagsins í dag. mbl.is/Sindri

„Rúnar [Kristinsson, þjálfari] hringdi í mig fyrir tveimur vikum og sagðist vilja spjalla við mig. Einn fundur með honum heillaði mig það mikið að ég ákvað bara að fara í KR,“ sagði Björgvin Stefánsson, hinn nýi framherji knattspyrnuliðs KR, við mbl.is í dag.

Björgvin kemur til KR frá Haukum þar sem þessi 23 ára gamli leikmaður skoraði 14 mörk í 19 leikjum í Inkasso-deildinni síðasta sumar. Hann skoraði 20 mörk fyrir Hauka sumarið 2015 en gekk ekki sem skyldi þegar hann reyndi fyrir sér í Pepsi-deildinni í fyrrasumar, með Val og Þrótti R.:

„Síðast þegar ég spilaði í Pepsi-deildinni náði ég mér alls ekki á strik. Ég spilaði ekkert sérstaklega mikið og gekk ekkert vel, þannig að ég hef í raun allt að sanna. Ég hef ekkert sýnt í þessari deild og finnst ég eiga mikið inni. Mér fannst kominn tími á að láta reyna á það aftur,“ sagði Björgvin.

Gott að vita að þjálfarinn hafi haft trú á manni lengi

Hann þekkir ágætlega til síns nýja þjálfara, Rúnars Kristinssonar, en Rúnar jós Björgvin lofi á fréttamannafundi í dag og nefndi að þeir hefðu áður starfað saman í skamman tíma:

„Ég æfði með Lilleström í einhverja tíu daga þegar hann var þjálfari þar og það gekk ljómandi vel. Rúnar sagði mér þá að hann hefði mikla trú á mér sem leikmanni, að honum fyndist mikið í mig spunnið, og það er mjög gott að vita að þjálfarinn hafi haft trú á manni í svona langan tíma,“ sagði Björgvin.

KR náði ekki að vinna sér Evrópusæti á síðustu leiktíð og áhorfendur hafa oft verið fleiri á leikjum liðsins en síðasta sumar. Aðspurður hvort honum liði eins og hann væri að koma inn í lið þar sem einhver lognmolla væri, svaraði Björgvin:

„Ég þekki náttúrulega ekkert hvernig andinn var á síðustu leiktíð en mín fyrsta upplifun af félaginu er alls ekki svoleiðis. Mér finnst vera mjög mikil tilhlökkun og eftirvænting fyrir því að sjá hvað Rúnar gerir hérna. Hann hefur margsannað sig sem þjálfari hjá þessu félagi og ég held að það séu allir mjög bjartsýnir á komandi tímabil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert