Hraðari leikir á Ítalíu

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir bregða á leik ...
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir bregða á leik á æfingu í Wiesbaden. Ljósmynd/KSÍ

„Maður finnur að það er mikil tilhlökkun í hópnum fyrir því að spila þessa tvo leiki,“ sagði framherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir þegar Morgunblaðið spjallaði við hana í Wiesbaden í Þýskalandi í gær en fyrir höndum eru leikir gegn Þýskalandi og Tékklandi á næstu dögum í undankeppni HM í knattspyrnu.

Landsliðið kom saman í Þýskalandi á mánudaginn og Berglind segir allar aðstæður vera mjög góðar, hvort sem um er að ræða vellina sem notaðir eru til æfinga eða hótelið en liðið hefur þó ekki æft enn sem komið er á leikvanginum þar sem leikið verður gegn Þjóðverjum á föstudaginn.

Berglind Björg hefur í haust leikið á nýjum slóðum sem atvinnumaður á Ítalíu með liði Verona. Hún segir viðbrigðin frá íslensku deildinni hafa verið talsverð.

„Mér líkar bara mjög vel þótt þetta sé frábrugðið því sem maður hefur vanist. Ítalir eru til dæmis svolítið kærulausir utan vallar og rosalega afslappaðir. Þeir borða kvöldmat klukkan níu á kvöldin sem dæmi og maður er ekki vanur því en þetta er allt að koma,“ sagði Berglind en lið Verona æfir iðulega klukkan 15:30 á daginn.

Gervigrasið fer víða

Þótt Ítalía sé í suðurhluta álfunnar hefur knattspyrnan þar ekki farið alveg á mis við gervigrasvæðinguna.

„Aðstæðurnar hjá félaginu eru mjög fínar. Umgjörðin er flott og starfsfólkið frábært. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Við æfum og spilum á gervigrasi. Ég hefði alltaf kosið náttúrulegt gras en þetta er allt í lagi. Ég hef þurft að venjast öðrum leikstíl en heima á Íslandi. Leikmenn eru tæknilega betri en á Íslandi og það er ekkert verið að negla boltanum fram úr vörninni. Leikirnir eru hraðari sem gerir manni bara gott. Ég er samt ennþá að venjast því. Einnig verð ég að nefna að leikmenn kasta sér í jörðina alveg hægri, vinstri. Það gera leikmenn á Íslandi ekki sem betur fer því þetta er óþolandi ávani,“ sagði Berglind en hló að tilhugsuninni.

Berglind er langt frá því að vera eini erlendi leikmaðurinn í sínu liði því þær eru allmargar sem ekki eru ítalskar.

„Það eru nokkrir útlendingar í mínu liði. Þær koma frá Kanada, Bandaríkjunum, Englandi, Írlandi, Belgíu og Grikklandi. Mér finnst þetta flott því þessir leikmenn koma með reynslu frá sínum löndum og hafa margt fram að færa. Leikur liðsins verður blanda af öllu. Reyndar talar þjálfarinn enga ensku og talar gjarnan við mann með höndunum. Aðstoðarþjálfarinn ásamt meirihluta starfsfólksins kann hins vegar ensku,“ sagði Berglind sem gerir ekki ráð fyrir öðru en að spila með Breiðabliki næsta sumar. Þar á hún ár eftir af samningi sínum og samningurinn við ítalska liðið var því einungis til 12. maí eða út keppnistímabilið á Ítalíu.