„Við berum virðingu fyrir Íslandi“

Sara Björk Gunnarsdóttir með grímuna við Wolfsburg í dag. Hún …
Sara Björk Gunnarsdóttir með grímuna við Wolfsburg í dag. Hún sækir hér að Babett Peter núverandi liðsfélaga sínum hjá Wolfsburg og mótherja í landsleiknum á morgun. AFP

Steffi Jones, landsliðsþjálfari Þýskalands, ber augljóslega virðingu fyrir íslenska landsliðinu. Kom það glöggt fram á blaðamannafundi þýska liðsins í Wiesbaden í dag. 

Jones staðfesti það sem eftir henni hafði áður verið haft á vef þýska knattspyrnusambandsins að hún reiknaði með því að Ísland yrði erfiðasti andstæðingur Þýskalands í þessari undankeppni en liðin mætast á morgun klukkan 14 að íslenskum tíma í undankeppni HM. 

„Já Ísland vann fyrsta leik sinn í riðlinum 8:0 og verður líklega okkar erfiðasti andstæðingu í riðlinum. Við berum virðingu fyrir Íslenska liðinu. Ísland er með gott lið og erfitt verður að mæta þeim. Við sáum hvernig liðið spilaði á EM í Hollandi og varnarleikur liðsins var sterkur með þrjá miðverði. Erfitt getur verið að skapa marktækifæri gegn liði eins og Íslandi,“ sagði Jones en hún nefndi þrjá leikmenn sem hún telur vera mikilvægustu leikmenn liðsins: „Númer 7, 23 og 10,“ sagði Jones og glotti. Látbragð hennar mátti skilja þannig að hún hafi frekar kosið að nefna númerin á treyjum leikmannanna heldur en að spreyta sig á íslenska framburðinum. Þar átti hún við Söru Björk Gunnarsdóttur, Fanndísi Friðriksdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur. Þar sem Sara spilar með Wolfsburg og Dagný var áður hjá Bayern München þá má ljóst vera að Jones veit hvað leikmennirnir heita þótt henni gæti fundist framburðurinn óþægilegur. 

Jones lýsti einnig íslenska liðinu á þann hátt sem margir kollegar hennar hafa gert á undanförnum árum. Talaði hún um gott hugarfar, baráttugleði, sterka liðsheild og margir leikmenn íslenska liðsins séu líkamlega sterkar. „Ég man eftir því þegar ég mætti Íslandi að erfitt getur verið að spila á móti íslenskum leikmönnum af þessum sökum. Ég veit að þær munu mæta okkar óhræddar og við þurfum að vera tilbúnar,“ sagði Jones sem lék 111 A-landsleiki fyrir Þjóðverja á árunum 1993-2007.

Fram kom hjá Jones að tíu leikmenn vanti í hópinn hjá Þjóðverjum en hún segir lítið gagn vera í því að velta sér upp úr slíku. Sagðist ekki hugsa mikið um það og einbeita sér frekar að því liðið sem hún er með í höndum.“

Frekar létt var yfir Jones á fundinum og virtist hún hafa gaman að samskiptunum við þýsku fjölmiðlamennina. Babett Peter var einnig á fundinum og hún virtist vera stressaðari þegar hún sat fyrir svörum. Hún leikur með Söru Björk Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg og var spurð um hvernig yrði að mæta Söru á vellinum. 

„Ég þekki hana vel og á von á mikilli baráttu. Sara er líkamlega og andlega sterk. Hún rífur liðsfélaga sína áfram í landsleikjum en það verður ekki nóg í þetta skiptið,“ sagði Peter sem leikið hefur 113 A-landsleiki fyrir Þýsaland þótt hún sé einungis 29 ára gömul.  

Frá vinstri: Babett Peter, Steffi Jones og fjölmiðlafulltrúi þýska liðsins.
Frá vinstri: Babett Peter, Steffi Jones og fjölmiðlafulltrúi þýska liðsins. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert