Vilja gera heimaleikinn gegn Þýskalandi mikilvægan

Freyr Alexandersson ásamt leikmönnum sínum.
Freyr Alexandersson ásamt leikmönnum sínum. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Þetta er ótrúlega spennandi verkefni. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum litla liðið. Ætlast er til þess að Þjóðverjar vinni riðilinn og helst með fullu húsi stiga,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, þegar mbl.is ræddi við hann um leik Þýskalands og Íslands í undankeppni HM á morgun. 

„Ef okkur tækist að ná í stig, eða vinna magnað afrek og ná þremur stigum, þá myndum við setja okkur í þá stöðu að við gætum verið með örlög okkar í höndunum þegar við fáum tvo heimaleiki gegn Þýskalandi og Tékklandi í september á næsta ári. Slík staða væri hrikalega
skemmtileg og fyrir okkur er það gulrót að slíkt gæti gerst. Ég ræddi um það við leikmennina að við þurfum þá ekki að biðja fólk um að fylla Laugardalsvöllinn. Hann myndi fyllast ef við ættum möguleika á því að komast á HM í leik á móti Þýskalandi.

Við erum þó algerlega meðvituð um styrk Þjóðverja og við erum ekki með væntingar um að vinna hér í Þýskalandi. Við Íslendingar erum þó nægilega klikkuð til þess að við ræðum um hvernig við getum unnið Þjóðverjana. Slíkt hugarfar gerir okkur Íslendinga að því sem við erum í íþróttum,“ sagði Freyr þegar Morgunblaðið ræddi við hann á Brita-leikvanginum í Wiesbaden þar sem leikurinn fer fram klukkan 14 að íslenskum tíma á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert