Afreksmaður í Laugardalnum

Markus Rehm.
Markus Rehm. AFP

Heimsmethafinn í langstökki fatlaðra, Markus Rehm, verður gestur á hinum árlega Paralympics-degi í Laugardalshöll á morgun þar sem starf Íþróttasambands fatlaðra er kynnt fyrir almenningi. 

Rehm hefur náð gríðarlegum árangri í sinni íþróttagrein því hann hefur stokkið 8,40 metra sem er 40 cm lengra en Íslandsmet ófatlaðra karla. Rehm er því í fremstu röð í greininni hvort sem um er að ræða fatlaða eða ófatlaða en hann keppir með gervifót frá íslenska fyrirtækinu Össuri. 

Tilkynning frá ÍF:

„Paralympic-dagurinn fer fram laugardaginn 21. október næstkomandi. Það er Íþróttasambandi fatlaðra sönn ánægja að tilkynna að Markus Rehm, einn fremsti frjálsíþróttamaður heims úr röðum fatlaðra, verður sérstakur gestur okkar í ár.

Markus er heimsmethafi í langstökki í flokki F44 og lengsta stökk hans er 8,40 metrar, sem þýðir að hann er meðal þeirra allra bestu í heiminum, jafnt í flokki fatlaðra og ófatlaðra. Hann er einnig meðlimur í Team Össur, en það er hópur afreksíþróttamanna úr röðum fatlaðra. Þess má geta að Helgi Sveinsson spjótkastari er einnig meðlimur í Team Össur.

Paralympic-dagurinn er stórskemmtilegur kynningardagur á íþróttum fatlaðra á Íslandi og afar ánægjulegt að hafa með okkur jafngóðan gest. Við hvetjum alla til að leggja leið sína í Laugardalinn 21. október næstkomandi og kynna sér allt það helsta í íþróttum fatlaðra hérlendis. Hver veit nema okkur takist að fá Markus til að taka stökkið í frjálsíþróttahöllinni.“

Upplýsingar um Paralympics-daginn

Facebooksíða fyrir Paralympics-daginn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert