Gula spjaldið var þess virði

Guðbjörg í leiknum í dag.
Guðbjörg í leiknum í dag. Ljósmynd/Raimund Sand

Markvörðurinn reyndi, Guðbjörg Gunnarsdóttir, stóð sig virkilega í marki Íslands í 3:2 sigrinum sögulega í Þýskalandi í dag og verður ekki sökuð um mörkin tvö. 

Hún sagði Þjóðverjana vera snjalla í því að senda erfiðar fyrirgjafir inn á teiginn en Guðbjörg segist hafa gaman að slíkum áskorunum. „Þær nota fyrirgjafir mikið enda eru þær með geggjaða skallamenn. Mér finnst það samt sem áður henta okkur nokkuð vel. Við erum góðar í því að verjast slíku og ég hef gaman að því að glíma við fyrirgjafir. Það sem er erfitt fyrir Þjóðverjana er að þær eru það flinkar að þær senda kannski boltann að markinu þegar þær eru í skotfæri. Þar sem þær eru í stöðu til að skjóta þá þarf ég að bíða og get því ekki farið út þegar lúmsk sending kemur. Þær eru góðar í þessu og það eru ekki öll lið sem hafa svo tæknilega góða leikmenn. Það gerir manni erfiðara fyrir og sást til dæmis í fyrra marki þeirra þegar leikmaður í skotfæri gaf inn á markteig,“ sagði Guðbjörg en þótt hún hafi notið þess að spila þennan leik þá var henni ekki sama á lokamínútunum. 

„Ég viðurkenni að mér leist ekki á blikuna á lokamínútunum. Sagan segir manni að Þjóðverjar eru líklegir til að skora undir lok leikja og jafnvel í uppbótartíma. Þá hugsaði maður: Fjandinn það mun ekki gerast í dag. Sem betur fer héldum við þetta út. Ég fékk til dæmis gult spjald fyrir að tefja og það gerist nú ekki oft en var þess virði í dag,“ sagði Guðbjörg í samtali við mbl.is í Wiesbaden. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert