Sögulegt tap Þjóðverja gegn Íslandi

Íslenska liðið fagnar sigrinum magnaða.
Íslenska liðið fagnar sigrinum magnaða. Ljósmynd/Reimund Sand

Ósigur þýska landsliðsins í knattspyrnu í undankeppni kvenna í Wiesbaden í dag, 2:3 gegn Íslandi, er í meira lagi sögulegur þegar horft er til gríðarlega sterkrar stöðu Þýskalands á heimsvísu í áratugi.

Þetta er fyrsta tap Þjóðverja í 69 leikjum á 20 árum í undankeppni HM eða EM. Þýskaland tapaði 1:0 fyrir Hollandi á útivelli 13. desember 1997 í undankeppni HM 1999. Frá þeim tíma hafði liðið leikið 68 leiki í undankeppni, unnið 66 þeirra, gert 2 jafntefli og skorað 344 mörk gegn 19.

Jafnteflin tvö voru 2:2 gegn Spáni á útivelli árið 2011 og 4:4 gegn Ítalíu á útivelli árið 1999.

Þetta er fyrsta tap Þjóðverja á heimavelli í undankeppni HM eða EM í 21 ár, eða síðan Þýskaland tapaði 1:3 fyrir Noregi á heimavelli 2. maí 1996, í undankeppni EM.

Þá höfðu Þjóðverjar unnið 37 síðustu heimaleiki sína í undankeppni HM eða EM, allt frá því þeir töpuðu umræddum leik gegn Noregi árið 1996.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert