„Vorum betra liðið á vellinum“

Íslenska liðið fagnar í dag. Glódís er lengst til hægri …
Íslenska liðið fagnar í dag. Glódís er lengst til hægri í treyju númer 4. Ljósmynd/Reimund Sand

„Þetta er ótrúlega stórt í sögulegu samhengi,“ sagði miðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir eftir stórkostlegan 3:2 sigur á Þýskalandi í Wiesbaden í undankeppni HM í knattspyrnu í dag. 

„Þetta er auðvitað í fyrsta skipti sem Ísland vinnur Þýskaland og við gerðum það ekki vegna heppni. Að mínu mati vorum við betra liðið á vellinum í dag og vorum taktíst betri. Við skoruðum þrjú frábær mörk og börðumst vel. Mér fannst þetta verðskuldaður sigur og frábært vinnuframlag hjá öllu liðinu. Ég er ótrúlega stolt,“ sagði Glódís þegar mbl.is ræddi við hana að leiknum loknum og henni leið vel á vellinum. 

„Mér leið ótrúlega vel en sérstaklega í seinni hálfleik þá vissi ég að alltaf væri hjálparvörn til staðar sama hvar ég væri á vellinum,“ sagði Glódís en hún segir landsliðskonurnar vera niðri á jörðinni og nú þurfi liðið að einbeita sér að leiknum gegn Tékklandi. 

„Við ætlum núna að njóta sigursins í nokkrar mínútur en svo er annar leikur á þriðjudaginn sem gildir alveg jafn mikið og þessi leikur þótt hann væri gegn Þýskalandi. Öll stig skipta máli og þessi sigur telur ekki í næsta leik. Það væri leiðinlegt að ná ekki úrslitum í Tékklandi eftir þessa frammistöðu. Við verðum að kúpla okkur út úr þessum leik strax á morgun og undirbúa okkur fyrir næsta leik. Þrjú stig gegn Þýskalandi eru gríðarlega mikilvæg í þessum riðli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert