„Aldrei verið jafn ánægð“

Landsliðskonurnar fagna marki í gær.
Landsliðskonurnar fagna marki í gær. Ljósmynd/Hartenfelser

„Ég held bara að ég hafi aldrei verið jafn ánægð,“ sagði varnarmaðurinn ungi, Ingibjörg Sigurðardóttir þegar mbl.is spurði hana hvernig henni leið þegar flautað var til leiksloka á Brita-leikvanginum í Wiesbaden í gær þar sem Ísland kom öllum á óvart og vann Þýskaland 3:2 í undankeppni HM. 

Ingibjörg var ein þriggja miðvarða í vörn Íslands í leiknum. Eftir að Þýskaland minnkaði muninn í 3:2 á 87. mínútu reyndi verulega á varnarmennina á lokamínútunum. 

„Ég get alveg viðurkennt að þetta var stressandi. En á heildina litið var ótrúlega gaman að spila þennan leik og sjá baráttuna í okkar liði. Þegar Þjóðverjarnir voru komnar með fjóra leikmenn í sóknina þá fannst manni þýskir leikmenn vera úti um allt. Þá var þetta mjög erfitt en einhvern veginn tókst okkur að komast í gegnum þetta,“ sagði Ingibjörg sem hefur stimplað sig hratt inn í landsliðið á þessu ári. 

Ingibjörg Sigurðardóttir
Ingibjörg Sigurðardóttir mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert