Fylgir geggjuð tilfinning

Dagný Brynjarsdóttir ræðir við Morgunblaðið eftir leikinn í Wiesbaden í …
Dagný Brynjarsdóttir ræðir við Morgunblaðið eftir leikinn í Wiesbaden í gær. Ljósmynd/Reimund Sand

„Þetta er örugglega einn besti leikur sem ég hef átt á ferlinum en þetta var liðssigur,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir við Morgunblaðið eftir stórbrotinn sigur á Þýskalandi, 3:2, í Wiesbaden í undankeppni HM. Dagný skoraði tvö mörk og lagði upp eitt en sagðist hafa þurft á góðri frammistöðu að halda.

„Ég þurfti á þessum leik að halda fyrir mig sjálfa. Ég var ekki ánægð með mig á móti Færeyjum því þá fékk ég færi sem ég nýtti ekki. Ég hafði hvorki skorað fyrir Portland né landsliðið á árinu. Við spiluðum virkilega vel í vörninni og sköpuðum mörg færi í sókninni. Hefðum hæglega getað skorað fleiri mörk. Þrjú mörk dugðu og við erum ánægðar með það,“ sagði Dagný sem varð þýskur meistari með Bayern München árið 2015. Fyrir hana var því afskaplega sætt að vinna Þjóðverja í Þýskalandi.

„Þetta er ótrúlega sætt. Í þýska liðinu voru þrír liðsfélagar mínir frá því í Bayern og tvær þeirra í byrjunarliðinu. Þetta var því ótrúlega gaman, að koma aftur til Þýskalands og spila vel. Svo sá ég traustan stuðningsmann Bayern í stúkunni sem veifaði til mín. Algert krútt,“ sagði Dagný. Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir upplifði væntanlega svipaðar tilfinningar því hún leikur nú með Wolfsburg og mætti einnig samherjum sínum.

Sjá nánar ítarlega umfjöllun um sigurinn ótrúlega á Þjóðverjum í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert