Öðruvísi líferni

Fanndís Friðriksdóttir
Fanndís Friðriksdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir lætur vel af sér í Marseille í Frakklandi þar sem hún hefur leikið sem atvinnumaður síðan franska deildin hófst í byrjun september. Hefur hún til þessa leikið fimm leiki með Marseille í deildinni.

„Ég kann mjög vel við mig en þetta er allt öðruvísi en það sem maður hefur vanist, hvort sem það er lífernið eða fótboltinn sjálfur,“ sagði Fanndís þegar Morgunblaðið settist niður með henni á hóteli íslenska landsliðsins í Tékklandi. Þar stendur fyrir dyrum næsti leikur Íslands í undankeppni HM gegn Tékkum á morgun klukkan 16 að íslenskum tíma.

Fanndís telur ekki að gæði fótboltans í Frakklandi séu miklu meiri en heima á Íslandi en segir margt vera nokkuð frábrugðið.

„Þetta er töluvert öðruvísi en heima. Við æfum alltaf á morgnana klukkan níu og æfingarnar eru mun lengri en heima. Allt í kringum þetta er faglegt. Þegar við förum í útileiki ferðumst við til dæmis degi á undan til þess að vera ekki að ferðast á leikdegi. Í kringum kvennaliðið er fleira starfsfólk en ég hefur áður kynnst en þetta er ekki risastórt skref að taka,“ sagði Fanndís en segir þó erfitt að finna aðra eins æfingaaðstöðu fyrir kvennalið og gerist í Smáranum í Kópavogi.

„Ég kem náttúrlega úr Breiðabliki. Ekki er hægt að líkja öllu við Breiðablik vegna þess að félagið er með heimsklassaaðstöðu. Þar er allt til alls. Í Marseille erum við á gervigrasvelli með lítillli stúku og nokkuð venjulegum búningsklefum. Við erum ekki með lyftingaaðstöðu en förum með lóðin út á gervigrasið og gerum styrktaræfingar þar. Aðstaðan er ekki tipp topp en þar er flest sem þarf.“

Lyon er í sérflokki

Lyon frá Frakklandi hefur sigrað í Meistaradeild Evrópu síðustu tvö keppnistímabil. Fanndís segir Lyon ekki gefa góða mynd af frönsku deildinni því liðið sé í sérflokki. Hins vegar séu flestir leikir annarra liða mjög jafnir.

„Mér finnst franska deildin sterk. Ég hef mætt liðum sem ég taldi að ættu að vera léleg vegna árangurs þeirra en svo eru þau langt frá því. Ég held samt að Lyon sé algert yfirburðalið í deildinni en allir leikir okkar liðs eru mjög jafnir. Deildin er því jafnari en ég bjóst við því ég hélt að hún væri tvískipt,“ útskýrði Fanndís en hún er alla jafna á vinstri kantinum hjá Marseille. Ýmist í leikkerfinu 4-3-3 eða 4-4-2.

Sjáðu viðtalið við Fanndísi í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert