Leikurinn upplýsandi fyrir Garðbæinga

Katrín Ásbjörnsdóttir í landsleik.
Katrín Ásbjörnsdóttir í landsleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Garðbæingar eru væntanlega sérlega spenntir fyrir því að sjá leik Tékklands og Íslands í undankeppni HM í knattspyrnu í dag því mikill fjöldi leikmanna Slavia Prag leikur með landsliðinu. Stjarnan mætir Slavia Prag í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á næstunni. 

Landsliðskonan Katrín Ásbjörnsdóttir neitar því ekki að hún sé spennt að sjá hvað Tékkarnir geta.

„Já auðvitað. Auk þess hefur þetta landslið sem við erum með núna ekkert mætt Tékklandi í langan tíma. Ásta Árna sjúkraþjálfari er sú eina í hópnum núna sem hefur mætt Tékklandi. Við búumst bara við erfiðum leik en allir nema tveir leikmenn liðsins spila með liðunum frá Prag,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is en þegar hún hélt utan í landsliðsverkefnin voru Garðbæingar ekki byrjaðir að skoða tékkneska liðið.

„Nei, dregið var til 16-liða úrslita keppninnar sama dag og ég átti flug út til Þýskalands með landsliðinu. Eftir að við lentum frétti ég af þessu. Þetta er bara spennandi verkefni rétt eins og landsleikurinn gegn Tékkum sem eru á uppleið.“

Í landsliðinu eru tveir leikmenn frá Stjörnunni, Katrín og Agla María. Að Íslandsmótinu loknu fengu þær fín verkefni til að halda sér í leikæfingu þegar Stjarnan spilaði tvo leiki í Meistaradeildinni.

„Nákvæmlega. Við Agla María erum þær Stjörnustelpur sem eru í hópnum núna. Fyrir okkur var mjög jákvætt að fá þessi verkefni. Þá höldum við okkur á tánum en stelpurnar heima eru einnig duglegar að æfa í Garðabænum. Það verður skemmtilegt að takast á við Tékkana í því umhverfi,“ sagði Katrín enn fremur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert