„Ég hefði skitið á mig“

Vinirnir og samstarfsmennirnir fyrrverandi, Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, á …
Vinirnir og samstarfsmennirnir fyrrverandi, Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, á góðri stundu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, rifjaði upp á GLS-ráðstefnunni í Háskólabíói í gærmorgun að hann hefði verið örlítið svekktur þegar honum var boðin staða aðstoðarlandsliðsþjálfara hjá KSÍ á sínum tíma. Hann átti sig á því í dag að hann hafi ekki verið fullmótaður í landsliðsþjálfarastarfið á þeim tíma.  

Heimir sat fyrir svörum á ráðstefnunni. Spyrjandinn hafði heyrt Heimi minnast á þetta atriði í fyrirlestri hjá fyrirtæki og bað Heimi að rifja þetta upp. 

Heimir sagðist hafa haft það mikla trú á sér sem þjálfara að þegar formaður KSÍ hringdi og sagðist vilja fá hann til starfa hjá KSÍ segist Heimir alveg eins hafa búist við því að bjóða ætti honum landsliðsþjálfarastarfið. Fyrstu viðbrögð hafi því verið örlítil vonbrigði þegar honum var boðið að gerast aðstoðarþjálfari. 

Heimir hafði þjálfað karlalið ÍBV í fimm ár með góðum árangri og kvennalið ÍBV þar á undan. Hann segist átta sig á því í dag að hann hefði ekki náð miklum árangri sem landsliðsþjálfari á þeim tíma: „Ég hefði skitið á mig big time,“ sagði Heimir og útskýrði hversu mikill munur væri falinn í því að þjálfa félagslið annars vegar og landslið hins vegar. 

„I have seen this before“

Heimir segir það hafa verið sína gæfu að geta lært af Svíanum Lars Lagerbäck í fjögur ár. Að fá að vinna með honum hafi verið „ómetanlegur fengur“. Annars vegar vegna þess að Lagerbäck hafði upplifað svo ótalmargt í slíku starfi og hins vegar vegna þess hversu ólíkar persónur þeir eru. Heimir sagði aldrei neitt hafa komið Svíanum á óvart og undirstrikaði þar mikilvægi reynslunnar. Sama hvað gekk á þá mun Lagerbäck hafa sagt við Heimi: „I have seen this before.“

Heimir segir þá vinina vera hvorn á sínum ásnum í persónuleikaprófum. Lagerbäck sé excel-týpa, yfirvegaður og skipulagður. Heimir segist hins vegar hafa verið stemningsmaður þegar þeir byrjuðu að vinna saman og opinn fyrir því að láta tilfinningarnar ráða för. Svíinn hafi kennt honum að hugsa með höfðinu frekar en hjartanu hvað þjálfunina varðar.  „Hann setti mest út á það hjá mér að ég hugsaði með hjartanu. Hann róaði mig aðeins niður og kenndi mér að hugsa meira með höfðinu.“

 Gagnkvæm virðing milli landsliðsmanna.

 Heimir hrósaði Eiði Smára.

Fékk fjögur sms eftir tapið gegn Finnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert