Leikmenn nýttu tækifærið og spiluðu vel

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Leikurinn spilaðist eins og við bjuggumst við. Það er erfitt fyrir lið sem byggir á sterkri liðsheild og góðri samvinnu að breyta miklu. Það tekur tíma að slípa saman og við höfðum hann ekki fyrir þennan leik," sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu við mbl.is eftir 2:1-tapið gegn Tékkum á alþjóðlega mótinu í Katar í dag. 

„Við gáfum leikmönnum tækifæri og eðlilega tók smá tíma ná saman. Mörkin tvö eru afleiðing þess að menn voru ekki nógu samstilltir. Við erum sáttir við sumt en ekki annað. Þetta var langt og erfitt ferðalag og aðeins einn dagur til að undirbúa fyrir þennan leik. Það var mikill tímamismunur og mikill hiti og við vissum að þessi leikur yrði erfiður."

Þrátt fyrir tapið var Heimir ánægður með margt sem hann sá í dag. 

„Það voru leikmenn sem nýttu tækifærið og spiluðu vel úr sínum spilum. Eftir því sem leið á leikinn varð samvinnan betri og betri. Tilgangurinn var að skoða þá leikmenn sem hafa spilað minna og það var jákvætt. Við hefðum getað spilað þannig úr leiknum að við hefðum átt möguleika á að vinna hann, en það var ekki tilgangurinn með verkefninu. Sama hvernig staðan er í leiknum héldum við okkur við það sem við ætluðum okkur."

Rúnar spilaði vel í sínum fyrsta landsleik

Rúnar Alex Rúnarsson stóð vaktina í marki Íslands allan tímann og var Heimir ánægður með hans fyrsta landsleik. 

„Miðað við fyrsta leik gekk nokkuð vel. Hann hefur marga mjög góða kosti. Mörkin sem hann fékk á sig og sérstaklega seinna markið er eitthvað sem þarf að skoða aftur. Ég held að miðað við fyrsta leik gegn sterkri knattspyrnuþjóð hafi hann skilað sínu mjög vel."

Fyrra mark Tékka var eins og teiknað á teikniborði þjálfarateymis Íslands. Langt innkast sem framherji skilaði í netið. 

„Það var skortur á ákvörðunartöku. Það var smá misskilningur á milli manna og enginn tók ákvörðun sem er ólíkt okkur, en það er eðlilegt þegar menn hafa ekki spilað mikið saman."

Kjartan Henry Finnbogason skoraði mark Íslands í leiknum. 

„Það var gott fyrir hann, hann er markaskorari og sterkur í teignum. Styrkleikinn hans og Viðars er að fá boltann inn í teig og klára færin sín. Það er sama hver hefði skorað, við hefðum verið ánægðir með það. Kjartan skilaði sínu hlutverki vel, hann hefur minnt á sig áður, hann skoraði í Kína þegar hann var með okkur þar."

Breytt lið gegn Katar á þriðjudaginn

En á Heimir von á mikið af breytingum fyrir leikinn gegn Katar næstkomandi þriðjudag?

„Við erum búnir að ákveða nokkur sæti í byrjunarliðinu í þeim leik og svo sjáum við hvað menn gera í vikunni. Við höfum fimm daga fyrir þann leik. Við höfum nógan tíma til að hugsa byrjunarliðið fyrir næsta leik."

„Við vorum búnir að ákveða að Aron, Gylfi, Alfreð og Raggi myndu ekki spila ásamt Jóni Guðna. Þeir voru að spila á sunnudegi, komu seint og höfðu stuttan tíma til að koma sér í gang. Við vildum ekki taka neinar áhættur," sagði Heimir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert