Eins marks tap gegn Spánverjum

Axel Óskar Andrésson og Viktor Karl Einarsson voru í liði …
Axel Óskar Andrésson og Viktor Karl Einarsson voru í liði Íslands í dag. mbl.is/Golli

Íslensku strákarnir í U21-landsliðinu í knattspyrnu urðu að sætta sig við 1:0-tap gegn Spánverjum í Murcia á Spáni í kvöld, í undankeppni Evrópumótsins. Fabián Ruiz, leikmaður Real Betis, skoraði eina mark leiksins á 36. mínútu.

Spánverjar, sem hafa á að skipa ungstirnum úr Real Madrid, Valencia og fleiri frábærum félagsliðum, voru mun meira með boltann í leiknum og sköpuðu sér auk þess fjölda færa. Það var því í takti við gang mála að þeir skyldu komast yfir og vinna leikinn.

Íslensku strákarnir börðust hins vegar af krafti allan leikinn og hefðu vel getað nýtt eitthvert þeirra örfáu tækifæra sem þeir fengu í leiknum til að skora. Sérstaklega var hætta á ferð þegar Albert Guðmundsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson komust í skyndisókn, tveir gegn einum varnarmanni, snemma í seinni hálfleik en sú sókn rann út í sandinn.

Ísland fékk einnig færi til að jafna í uppbótartíma, og varamaðurinn Óttar Magnús Karlsson átti þá skalla sem fór rétt framhjá marki Spánverja, eftir aukaspyrnu Alberts.

Spánverjar voru hins vegar afar vel að sigrinum komnir og hafa nú unnið alla þrjá leiki sína í undankeppninni til þessa. Íslendingar eru hins vegar með 4 stig eftir 4 leiki, í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins. Þetta var þriðji útileikur Íslands í röð og liðið leikur næst gegn Eistlandi, á útivelli, næstkomandi þriðjudag.

Spánn U21 1:0 Ísland U21 opna loka
90. mín. Axel Óskar Andrésson (Ísland U21) á skot sem er varið Hornspyrna Alberts fór frekar utarlega og mér sýndist það vera Axel sem reyndi bakfallsspyrnu sem fór í varnarmann, á lokaandartökum leiksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert