Getum tekið þessar stelpur

Katrín Ásbjörnsdóttir í eldlínunni gegn Rossijanka í 32 liða úrslitunum.
Katrín Ásbjörnsdóttir í eldlínunni gegn Rossijanka í 32 liða úrslitunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var svolítið svekkjandi, við sáum það að við eigum fullan séns í þessar stelpur,“ sagði Katrín Ásbjörnsdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, eftir svekkjandi 2:1 tap gegn Slavia Prag í 16-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu.

„Við vorum aðeins óöruggar þarna í byrjun og það var eitthvert smá stress en um leið og við fórum að spila okkar leik og færa okkur framar upp völlinn þá sáum við það að við getum unnið þessar stelpur. Við ætlum að gefa 100% í leikinn í næstu viku.“

Katrín segist hafa þekkt ágætlega til liðsins enda skipað mörgum landsliðsmönnum Tékklands sem mætti íslenska landsliðinu í síðasta mánuði.

„Við vissum meira um þær heldur en Rossijanka til dæmis og margar af þeim voru að spila með tékkneska landsliðinu gegn Íslandi fyrir mánuði síðan. Við vissum alveg þó nokkuð um þær; eru líkamlega sterkar og með góða leikmenn frammi en það eru veikleikar í vörninni hjá þeim.“

„Við sáum það um leið og við fórum að pressa að þær voru hikandi og markmaðurinn þeirra var í basli.

Lára Kristín Pedersen jafnaði metin fyrir Stjörnuna um miðjan síðari hálfleikinn en þær tékknesku komust aftur yfir aðeins tveimur mínútum síðar. Katrín viðurkennir að það hafi verið svekkjandi en nú sé það bara að huga að næsta leik.

„Já, ég held það og smá óheppni, þetta gerist. Þær hefðu líka getað fengið víti þarna í fyrri hálfleik sem hún hefði getað dæmt á en svona er bara fótboltinn. Við þurfum að halda áfram og gleyma þessu augnabliki og koma meira einbeittar inn í næsta leik.“

„Við sjáum það alveg að við getum tekið þessar stelpur en við þurfum að gera betur, við vitum það. Við spiluðum ekki okkar leik eins og við gerðum í sumar en við getum unnið þær og verðum að trúa því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert