Stjarnan á erfitt verk fyrir höndum

Lára Kristín Pedersen jafnar fyrir Stjörnuna í kvöld.
Lára Kristín Pedersen jafnar fyrir Stjörnuna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan á erfitt verkefni fyrir höndum í Tékklandi eftir viku eftir 2:1 tap fyrir Slavia Prag í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu.

Tékklandsmeistararnir hófu leikinn af miklum krafti og fengu fyrsta færið strax á annarri mínútu þegar Kosárová skallaði rétt framhjá af stuttu færi en hún er einn níu leikmanna Slavia Prag sem tók þátt í landsleik Tékklands og Íslands í síðasta mánuði sem endaði með 1:1 jafntefli.

Stjarnan var nokkuð lengi af stað en beit þó frá sér um miðbik fyrri hálfleiksins og átti Agla María Albertsdóttir tvö álitleg færi til að brjóta ísinn en í bæði skiptin brást henni bogalistin. Það voru svo gestirnir frá Tékklandi sem skoruðu fyrsta og eina mark fyrri hálfleiks á 36. mínútu þegar Klára Cahynova átti stungusendingu inn fyrir á Petru Divisova sem afgreiddi boltann í fjærhornið, framhjá Gemmu Fey í marki Stjörnunnar.

Heimakonur komu grimmar inn í síðari hálfleikinn og eftir að hafa skapað nokkur ágæt færi tókst Láru Kristínu Pedersen að jafna metin með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur á 69. mínútu. Gamanið entist þó stutt því Slavia Prag komst aftur yfir aðeins tveimur mínútum síðar. Bryndís Björnsdóttir braut klaufalega á sér inn í eigin vítateig og Katerina Svitková skoraði af öryggi úr meðfylgjandi vítaspyrnu.

Stjörnukonur héldu áfram að reyna eftir þetta kjaftshögg en það dugði ekki til og þær fara því með 2:1 tap á bakinu til Tékklands eftir viku.

Harpa Þorsteinsdóttir í baráttu um boltann í kvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir í baráttu um boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
Stjarnan 1:2 Slavia Prag opna loka
90. mín. Tereza Szewieczková (Slavia Prag) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert