Þetta er bara tékkneska landsliðið

Byrjunarlið Stjörnunnar í kvöld.
Byrjunarlið Stjörnunnar í kvöld. Ljósmynd/Stjarnan

„Það var virkilega svekkjandi að fá ekki meira út úr þessum leik, við hefðum átt það skilið,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir svekkjandi 2:1 tap gegn Slavia Prag í 16-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við sköpuðum okkur færin og ég er frekar vonsvikinn. Það var ekki mikið í þeirra leik sem kom okkur á óvart, við vissum að þær myndu pressa ofarlega og vera opnar til baka og okkar áætlun gekk ágætlega en við kláruðum ekki færin okkar.“

„Við vorum að spila við virkilega gott lið og við neitum því ekkert, við ætluðum að liggja til baka og reyna að halda hreinu en því miður tókst það ekki.“

Lið Slavia Prag er að stórum hluta skipað landsliðskonum Tékklands sem gerðu 1:1-jafntefli við Ísland í undankeppni HM fyrir hálfum mánuði og þótti það talsvert sigurstranglegra fyrir leikinn sem var svo nokkuð jafn. Ólafur vissi vel hversu gott þetta lið er en sagðist hafa fulla trú á sínum hóp.

„Sú umræða var ekki innan okkar vébanda get ég sagt þér. En auðvitað er þetta bara tékkneska landsliðið sem gerði jafntefli við það íslenska um daginn sem lenti í svipuðum vandræðum og við. Við höfum fulla trú á því að geta klárað þetta með því að nýta veikleika þeirra, miðað við færin sem við fengum í kvöld þá hefðum við átt að gera það hérna.“

Lára Kristín Pedersen jafnaði metin fyrir Stjörnuna á 69. mínútu en tékknesku meistararnir svöruðu um hæl og voru aftur komnir yfir aðeins tveimur mínútu seinna.

„Þetta var bara aðeins einbeitingarleysi, ég sá ekki alveg hvað gerðist en menn segja að þetta hafi verið víti, það er bara þannig. Það koma oft svona augnablik eftir að mark er skorað að menn verða aðeins værukærir. Þessar 2-3 mínútur eftir mark eru þær hættulegustu og við féllum í þá gildri núna, það er súrt en þetta er reynsla fyrir okkur.“

Nú er ljóst að Stjarnan þarf að skora tvö mörk í Tékklandi til að geta komist áfram, mun Ólafur gera miklar breytingar á leikskipulaginu fyrir seinni leikinn eftir viku?

„Við eigum aðeins eftir að skoða leikinn aftur en á einhverjum tímapunkti, ef staðan verður svona, þurfum við að pressa þær meira og sjá hvernig þær bregðast við því. Þær fengu dálítið að spila út frá markmanninum sínum og hann var ekki að drífa langt, við unnum boltann aðeins þar.“

„Það er ljóst að við þurfum að skora tvö mörk úti og við förum út til þess en við þurfum líka að passa markið okkar, eitt mark fyrir þær gerir þetta erfitt.“

„Við erum að spila á þessum stað í keppninni í fyrsta skipti gegn liði í þessum styrkleika og það er frábær reynsla fyrir hópinn sem stóð sig vel og stóð alveg undir því,“ sagði Ólafur að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert