Arnar hefur hafið störf fyrir Víking

Arnar Gunnlaugsson aðstoðaði Willum Þór Þórsson á síðustu leiktíð.
Arnar Gunnlaugsson aðstoðaði Willum Þór Þórsson á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Arnar Gunnlaugsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Víkings Reykjavíkur sem leikur í efstu deild karla í knattspyrnu og mun þar aðstoða Loga Ólafsson, þjálfara Víkinga. Heimir Gunnlaugsson, varaformaður Víkings, staðfesti það í samtali við mbl.is í dag.

Arnar hefur þegar hafið störf og mætti á sína fyrstu æfingu í morgun en hann gerir tveggja ára samning við félagið.

Arnar tekur við starfinu af Bjarna Guðjónssyni sem er orðinn aðstoðarþjálfari KR. Arnar var einmitt í því starfi á síðustu leiktíð er hann aðstoðaði Willum Þór Þórsson sem steig síðan til hliðar í haust og Rúnar Kristinsson tók við. Þjálfarakapallinn er því óðum að styttast í íslenska karlafótboltanum.

Arnar er knattspyrnuáhugafólki vel kunnugur en hann var atvinnumaður í fjölmörg ár og lék m.a. með Bolton og Leicester á Englandi og á að baki 32 A-landsleiki og þrjú mörk fyrir Íslands hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert