Emil samdi við Sandefjord – Tilboð í Hólmbert

Emil Pálsson í leik með FH gegn Breiðabliki í sumar.
Emil Pálsson í leik með FH gegn Breiðabliki í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emil Pálsson hefur samið við norska úrvalsdeildarliðið Sandefjord til tveggja ára og þá hefur Sandefjord gert Stjörnunni tilboð í Hólmbert Aron Friðjónsson.

„Ég er virkilega ánægður að þetta sé að verða að veruleika en ég hef stefnt að því að komast út í atvinnumennskuna. Ég er mjög spenntur fyrir þessu og hlakka mikið til að byrja að æfa með liðinu. Ég fer út til Sandefjord í janúar og þá tekur nýr kafli við hjá mér á ferlinum,“ sagði Emil við mbl.is en hann fór á dögunum til skoðunar hjá Sandefjord ásamt Hólmberti Aroni Friðjónssyni, framherja Stjörnunnar.

Hólmbert Aron Friðjónsson.
Hólmbert Aron Friðjónsson. mbl.is/Golli

Samningur Emils við FH rennur út um áramótin og hann fer því til norska liðsins án greiðslu en Hólmbert á tvö ár eftir af samningi sínum. Stjörnunni hefur borist tilboð frá Sandefjord í Hólmbert. Það staðfesti Sæmundur Friðjónsson, formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar, við mbl.is og sagði að Stjarnan myndi skoða það mál yfir helgina.

Emil, sem er 24 ára gamall miðjumaður, kom ungur að árum til FH frá Ísafirði árið 2011 en hann lék með BÍ/Bolungarvík áður en hann gekk í raðir Hafnarfjarðarliðsins.

Emil hefur spilað 114 deildarleiki með FH og skorað í þeim 19 mörk og þá lék hann hálft tímabil með Fjölni sumarið 2015 þar sem hann skoraði 1 mark í 9 leikjum. Eftir það tímabil var hann valinn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar af leikmönnum deildarinnar. Emil hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands og á einn A-landsleik að baki en hann lék fyrri hálfleikinn gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum í vináttuleik í janúar á síðasta ári.

Sandefjord, sem er nýliði í norsku úrvalsdeildinni, er í 10. sæti af 16 liðum í deildinni þegar tvær umferðir eru eftir en liðið tryggði sér áframhaldandi veru í úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Landsliðsmarkvörðurinn Ingvar Jónsson leikur með Sandefjord en hann kom til liðsins frá Sandnes Ulf og er að klára sitt annað tímabil með liðinu. Ingvar varð Íslandsmeistari með Stjörnunni árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert