Verður Ísland í öðrum styrkleikaflokki?

Ísland verður í 2. eða 3. styrkleikaflokki þegar dregið verður …
Ísland verður í 2. eða 3. styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland á enn möguleika á að vera í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í Rússlandi 1. desember, fyrst Svíum tókst að slá Ítali út í umspilinu í kvöld.

Ef Ítalir hefðu farið áfram hefði verið endanlega ljóst að Ísland yrði í þriðja styrkleikaflokki, en röðunin er byggð á heimslista FIFA þar sem íslenska liðið er í 21. sæti. Svíar eru fyrir neðan Íslendinga á listanum, í 25. sætinu, þannig að það var hagstætt að þeir skyldu vinna sér inn HM-sæti.

Enn þurfa tvö umspilseinvígi að enda á réttan hátt til að Ísland verði í öðrum flokki. Írar (26. sæti) þurfa að sigra Dani (19. sæti) annað kvöld og Nýja-Sjáland (122. sæti) þarf að slá út Perú (10. sæti) aðfaranótt fimmtudagsins. Staðan er 0:0 í báðum einvígjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert