Sætur sigur hjá U21 árs landsliðinu

Albert Guðmundsson skoraði sitt fjórða mark í undankeppninni.
Albert Guðmundsson skoraði sitt fjórða mark í undankeppninni. mbl.is/Golli

Íslenska U-21 árs landslið karla í knattspyrnu hrósaði 3:2 sigri gegn Eistum í undankeppni Evrópumótsins í Tallinn í dag.

Íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en nýtti ekki nokkur ágæt marktækifæri. Eistar náðu hinsvegar óvænt forystunni með marki á lokamínútu fyrri hálfleiksins, 1:0.

Þeir skoruðu síðan aftur, beint úr aukaspyrnu, á 51. mínútu og voru skyndilega komnir í 2:0. En íslenska liðið var ekki að bakið dottið. Albert Guðmundsson minnkaði muninn á 56. mínútu og Ísland sótti látlaust og fékk nokkur mjög góð færi til að jafna metin.

Það tókst loks á 74. mínútu þegar Jón Dagur Þorsteinsson lyfti boltanum skemmtilega fyrir mark Eista og Hans Viktor Guðmundsson skoraði með skalla af markteig, 2:2.

Sigurmarkið kom á 79. mínútu. Albert tók aukaspyrnu frá vinstri, Axel Óskar Andrésson skallaði frá hægri fyrir markið og Óttar Magnús Karlsson fylgdi á eftir í markteignum, 3:2.

Sindri Kristinn Ólafsson kom síðan í veg fyrir að Eistar jöfnuðu metin þegar hann varði vel af stuttu færi rétt fyrir leikslok.

Íslendingar eru komnir með 7 stig eftir fimm leiki í riðlinum og eru í 3. sæti. Spánverjar, sem leika við Slóvaka í kvöld, eru með 9 stig eftir þrjá leiki og N-Írar eru í toppsætinu með 10 stig eftir fimm leiki. Eistar eru í botnsætinu með 1 stig eftir sex leiki.

mbl.is