„Vorum ekki sáttir við frammistöðuna“

Heimir Hallgrimsson fylgist með leiknum í kvöld.
Heimir Hallgrimsson fylgist með leiknum í kvöld. AFP

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, sagðist ekki hafa verið sáttur við frammistöðu íslenska liðsins gegn Katar á þriggja liða mótinu í Katar þegar mbl.is ræddi við hann í kvöld.

Heimir var þó ánægður með varnarleik íslenska liðsins lengst af en jöfnunarmarkið í uppbótartíma setti strik í reikninginn. „Við vorum ekki sáttir við frammistöðu okkar í dag. Sóknarleikurinn var ekki góður og mikið um misheppnaðar sendingar hjá okkur. Við sköpuðum auk þess lítið. Við vorum nokkuð góðir í varnarleiknum. Fram að því þegar markið kom í uppbótartímanum þá hafði ég verið mjög ánægður með hvernig liðið varðist í síðari hálfleik. Áherslan í síðari hálfleik var að bakka og æfa okkur í að verjast. Við vildum þétta og spila með þrjá miðverði. Freistuðum þess að loka öllum leiðum í gegnum okkur. Það var markmiðið í seinni hálfleik,“ sagði Heimir og hann sagði menn sem ekki hafa verið í stórum hlutverkum í landsliðinu hafa komið misjafnlega út í leikjunum tveimur í ferðinni. 

„Sumir þeirra komu vel út úr þessum verkefnum og aðrir ekki. Einn tilgangur ferðarinnar var að gefa mönnum tækifæri sem lítið hafa spilað og fá svör. Sum svör voru jákvæð og sum neikvæð en gott fyrir okkur þjálfarana að fá svör og geta gefið mönnum tækifæri til að sýna sig. Sumir nýttu það en aðrir ekki eins og gengur.“

Spurður um hvernig leikmenn hafi höndlað hitann í Katar á æfingum og í leikjum sagði Heimir það ljóst vera að heimamenn hafi átt auðveldara með aðstæður en Íslendingarnir í kvöld. „Ágætlega. Ég held að allir hafi séð í þessum leik að heimamenn eru vanari hitanum í dag. Ég held að við höfum þó náð því að vera nógu skipulagðir til þess að þeir komust ekki mikið í gegnum okkur þótt þeir hafi verið meira með boltann. Þeir voru hraðari og snarpari en við sem er kannski eðlilegt,“ sagði Heimir Hallgrímsson í samtali við mbl.is. 

Heimir Hallgrímsson (lengst til hægri) á hliðarlínunni í leiknum í …
Heimir Hallgrímsson (lengst til hægri) á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert